Íslandsflugið ekki það eina sem fór úrskeiðis

Sumarið 2014 hóf breska flugfélagið Flybe að fljúga hingað frá Birmingham. Þeirri útgerð var fljótlega hætt og flugfélagið sjálft er núna komið á sölu.

flybe 860
Mynd: Flybe

Umsvif breska lágfargjaldaflugfélagsins easyJet jukust mjög á Keflavíkurflugvelli á árunum 2012 til 2014 og forsvarsmenn Flybe ákváðu að láta reyna á hvort þeir gætu líka haldið úti arðbæru Íslandsflugi. Í júní 2014 fór félagið jómfrúarferð sína hingað frá bresku borginni Birmingham en níu mánuðum síðar var flugleiðin lögð niður. Icelandair tók við keflinu en Birmingham hvarf svo út af leiðakerfi félagsins í fyrra.

Þessi útgerð Flybe á Keflavíkurflugvelli var síður en svo eina feilsporið sem stjórnendur Flybe hafa stigið síðustu ár og nú er svo komið að félagið er til sölu. Í frétt Sky news í gær segir að síhækkandi olíuverð hafi haft slæm áhrif á stöðu flugfélagsins en hlutabréf þess hafa verið í frjálsu falli eftir afkomuviðvörun.

Flybe hefur einbeitt sér að innanlandsflugi á Bretlandi auk Evrópuflugs til minni áfangastaða. Flugfloti félagsins samanstendur nær eingöngu af smærri farþegavélum af gerðunum Bombardier og Embraer.