Íslensku flugfélögin aðeins óstundvísari

Í samanburði við stærstu flugfélög Norðurlanda þá héldu Icelandair og WOW ekki eins vel áætlun í október.

Mynd: Matthew Smith / Unsplash

Þeir sem flugu með Norwegian eða SAS í nýliðnum október komust að jafnaði á áfangastað á réttum tíma í 80 prósent tilvika á. Þetta má sjá í mánaðarlegum uppgjörum flugfélaganna tveggja. Þar má jafnframt finna upplýsingar um sætanýtingu, farþegafjölda og þróun fargjalda. Hvorki Icelandair né WOW air veita svona ítarlegar upplýsingar í sínum farþegatölum og minnast ekki á stundvísina.

Alþjóðlegur samanburður OAG greiningafyrirtækisins sýnir hins vegar að stundvísi íslensku félaganna var lakari en hjá SAS og Norwegian í síðasta mánuði. Rétt um 7 af hverjum 10 ferðum Icelandair voru á áætlun en hlutfallið var um 74 prósent hjá WOW air. Þess ber þó að geta að tölur OAG fyrir Norwegian og SAS eru aðeins lakari en fram kemur í opinberum tölum fyrirtækjanna tveggja en þó mun betri en hjá þeim íslensku.

Sem fyrr segir þá fær verðþróunin líka sinn sess í mánaðarlegum uppgjörum skandinavísku flugfélaganna og er skemmst frá því að segja að meðalfargjaldið hækkaði hjá SAS en lækkaði hjá Norwegian. Síðarnefnda flugfélagið er í harðri samkeppni við Icelandair og WOW air í flugi yfir Atlantshafið og þróunin hjá Norwegian því vísbending um að meðalfargjaldið hjá íslensku flugfélögunum hafi líka lækkað í október.

Það voru hins vegar þotur WOW sem voru þéttsetnastar í síðasta mánuði þar sem hlutfallið var 88%. Það er tveimur prósentustigum lægri nýting en á sama tíma í fyrra og er þetta í fyrsta skipti í langan tíma sem sætanýtingin hjá WOW lækkar á milli tímabila. Þetta er líka fyrsta uppgjör félagsins eftir yfirtöku Icelandair. Hjá því flugfélagi var 81% sæta skipuð farþegum í október en 85% hjá Norwegian. Lakasta nýtingin var hjá SAS eða 75% en þar hækkaði hins vegar meðalfargjaldið á meðan það lækkaði hjá norska flugfélaginu. Það getur nefnilega verið einfaldara fyrir stjórnendur flugfélaga að fylla sætin en hækka fargjöldin.