Lítill gangur í viðræðum við Rússa um yfirflug

Það er ekki útlit fyrir að íslensk flugfélög hefji áætlunarflug til Kína eða Japan á næstunni.

Mynd: Aman Bhargava / Usplash

Stysta flugleiðin héðan til Austurlanda fjær liggur yfir Síberíu en hana mega íslensk flugfélög ekki nýta sér. Þar með geta Icelandair og WOW air ekki boðið upp á áætlunarflug til Kína, Japan eða Suður-Kórea. Viðræður íslenskra og rússneskra stjórnvalda um heimild til yfirflugs, fyrir íslenska flugrekendur, hafa ekki skilað árangri en fundir fóru fram í Moskvu í sumarbyrjun í fyrra og aftur þá um haustið. Síðan þá hefur engin formlegur fundur farið fram heldur aðeins óformlegar viðræður samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu.

Líkt og Túristi hefur áður fjallað um þá gætu Rússar sett það sem skilyrði fyrir heimildinni að íslensk flugfélög hefji fyrst áætlunarflug til Rússlands áður en þau fá leyfi til nýta sér rússneska lofthelgi til að fljúga til kínverskra eða japanskra áfangastaða. Í dag takmarkast hins vegar flugsamgöngur milli Íslands og Rússlands við sumarflug S7 frá Moskvu til Íslands og ekki er útlit fyrir að á því verði breyting á næsta ári. Íslensk flugfélög hafa þó leyfi til flugs til nokkurra rússneskra borga en ferðirnar mega að hámarki vera 7 í viku. Það hafa forsvarsmenn hvorki forsvarsmenn WOW air né Icelandair nýtt sér ef frá er talið áætlunarflug Icelandair til Sankti Pétursborgar yfir sumarmánuðina 2013 og 2014.

Það eru ekki bara íslensk stjórnvöld sem bíða eftir því að fá Rússa að samningaborðinu því Norðmenn hafa líka reynt að fá leyfi fyrir ferðum Norwegian yfir Síberíu en þeim viðræðum miðar hægt.