Ráðherra fær ekki að upplýsa Alþingi um skuldir flugfélaga

Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar segist ekki sáttur við svör samgönguráðherra við fyrirspurn sinni um skuldastöðu flugrekenda. Stjórnendur Isavia telja ekki heimilt að veita þessar upplýsingar og þeir segjast ekki heldur getað neitað skuldugum flugrekendum að nýta flugvelli landsins.

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, ætlar að fylgja fyrirspurn sinni eftir varðandi mögulega skuldasöfnun flugfélega á Keflavíkurflugvelli. Myndir: Alþingi og Isavia

Farþegaþota Airberlin var kyrrsett á  Keflavíkurflugvelli vegna vanskila á notendagjöldum í október í fyrra. Skiptastjóra þýska flugfélagsins tókst að lokum að semja um skuldina við Isavia og þotunni var hleypt í loftið. Hversu há skuld Airberlin á Keflavíkurflugvelli var hefur ekki fengist upplýst. Það liggur heldur ekki fyrir hversu háa upphæð stjórnendur tékknesks flugfélags greiddu til Isavia til að fá tilbaka þotu, sem þeir höfðu leigt Iceland Express, eftir að hún var kyrrsett haustið 2012.

Það fást heldur engin svör um það hjá Isavia eða WOW air hvort heimildir Morgunblaðsins hafi verið réttar um að flugfélagið hafi í haust skuldað um tvö milljarða í lendinga- og farþegagjöld á Keflavíkurflugvelli. Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi félagsins, fullyrti í framhaldinu að flugfélagið hefði aldrei skuldað yfir tvo milljarða á flugvellinum en það hafði Morgunblaðið hvort eð er ekki skrifað. Hvort stjórnendur Icelandair, sem nú hafa keypt WOW air, muni upplýsa um hvað er satt og rétt í málinu á eftir að koma í ljós en þeir hafa ekki svarað spurningum Túrista um þetta tiltekna atriði.

Stöðvunarheimildin dugði ekki við gjaldþrot Primera air

Stjórnendur Isavia er heldur ekki til að svara fyrirspurnum frá þingmönnum um þessi mál. Í þarsíðustu viku óskaði Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, eftir upplýsingum um þá áhættu sem Isavia tekur varðandi ógreidd farþega- og lendingagjöld á Keflavíkurflugvelli. Jón Steindór spurði hvaða reglur gilda í þeim tilvikum sem einstök flugfélög borga ekki þau gjöld sem þeir ber að greiða á flugvöllum landsins. Einnig bað þingmaðurinn um upplýsingar um hvernig dráttarvextir væru reiknaðir, hvaða sektarúrræðum beitt og um jafnræði milli flugfélaga hvað þessi mál varðar.

Fyrirspurninni var beint til samgönguráðherra og í svörum hans, sem birt voru í gær, segir meðal annars að Isavia leggi áherslu á jafnræði milli flugfélaga hvort sem um er að ræða gjaldtöku, innheimtu eða aðra þætti. Stjórnendur Isavia telja sér ekki heimilt að neita flugrekanda um viðskipti vegna vangreiddra gjalda. „Flugfélög þurfa almennt ekki að leggja fram tryggingar fyrir greiðslu viðskiptaskulda enda hafa úrræði eins og stöðvunarheimild tryggt greiðslu í flestum tilvikum,“ segir jafnframt í svari samgönguráðherra. Í því samhengi má rifja upp að tap Isavia vegna gjaldþrots Primera air hefur líklega numið tugum milljóna króna enda tókst ekki að beita fyrrnefndri stöðvunarheimild þegar flugfélags Andra Más Ingólfssonar fór á hausinn í byrjun október.

Jón Steindór bað jafnframt um upplýsingar um skuldir einstakra flugfélaga allt frá árinu 2013 og hversu stór hluti skuldanna hefði farið fram yfir gjalddaga. Við þeirri spurningu fást hins vegar engin svör. „ Málefni einstakra flugfélaga eru trúnaðarmál Isavia og viðkomandi flugfélags. Almennt greiðslufyrirkomulag er að tekin eru saman gjöld í lok hvers mánaðar og flugfélag hefur síðan annan mánuð í gjaldfrest,“ segir í svari ráðherra. Aðspurður segir Jón Steindór, í svari til Túrista, að hann sé ekki sáttur við svör ráðherra og sérstaklega ekki það sem snýr að skuldastöðunni. Telur þingmaðurinn að hægt hefði verið að svara þessari fyrirspurn án þess þó að nafngreina viðkomandi flugfélög. Jón Steindór segir málinu ekki lokið að sinni hálfu og hyggst fylgja því frekar eftir.

Íslensku félögin rukkuð um rúman milljarð fyrir október

Þó fyrrnefnt tjón vegna Primera air hafi verið umtalsvert þá var það ekkert á við þann skaða sem gjaldþrot Icelandair eða WOW air kynni að valda Isavia. Þannig má gera ráð fyrir að  reikningur Isavia til Icelandair, vegna lendinga- og farþegagjalda í október, hafi numið nærri 600 milljónum króna. Reikningurinn til WOW hefur verið rétt um hálfur milljarður króna. Í þessum útreikningum er stuðst við talningu Túrista á flugumferð til og frá landinu og opinberrar upplýsinga flugfélaganna um fjölda farþega.