Rússar slaka á kröfum en halda flugleiðinni áfram lokaðri

Ef íslensk flugfélög fá einn daginn leyfi til að fljúga stystu leiðina til Kína eða Japan þá þurfa þau ekki á sama tíma að hefja áætlunarflug til Rússlands.

Frá Moskvu. Mynd: Alexander Smagin / Unsplash

Hvorki Icelandair né WOW air geta í dag boðið upp á áætlunarflug til Kína eða Japan þar sem rússnesk og íslensk stjórnvöld hafa ekki náð samkomulagi um flug íslenskra flugfélaga yfir Síberíu. Þar með komast íslensku flugfélögin ekki stystu leiðina til þeirra markaða í Asíu sem almennt eru taldir stærstir fyrir evrópsk flugfélög.

Lítið hefur miðað í samkomulags átt í þessum málum en á fundi íslenskra og rússneskra stjórnvalda í Moskvu í síðustu viku, um tvíhliða viðskipti landanna, kom fram að rússnesk stjórnvöld gera ekki lengur kröfu um að íslenskir flugrekendur sem ætla að nota Síberíuflugleiðina haldi jafnframt upp beinu áætlunarflugi til áfangastaðar í Rússlandi.

Þar með er ljóst að ef stjórnendur íslensks flugfélags sjá tækifæri í áætlunarflugi til Japan eða Kína þá þurfa þeir ekki á sama tíma að leggja drög að reglulegum ferðum til Moskvu eða annarra rússneskra borga. Icelandair hélt um tíma úti ferðum til Sankti Pétursborgar um tíma en núna takmarkast flugsamgöngur milli Íslands og Rússlands við sumarflug S7 hingað frá Moskvu.