Sameinað flugfélag er smátt í evrópskum samanburði

Jafnvel þó Icelandair Group reki nú þrjú áætlunarflugfélög þá er langt í að nafn fyrirtækisins komist á lista yfir 10 stærstu flugfélög Evrópu.

Fyrstu níu mánuði ársins sátu rúmlega 6 milljónir farþega um borð í þotum Icelandair og WOW. Myndir: Icelandair og WOW air

Með kaupunum á WOW air í gær þá eykst farþegafjöldinn hjá Icelandair Group verulega enda flutti WOW air um 2,8 milljónir farþega fyrstu níu mánuði ársins. Á því tímabili voru farþegarnir hjá Icelandair um 3,3 milljónir og um 250 þúsund flugu með Air Iceland Connect. Samtals hafa flugfélögin þrjú, sem nú tilheyra sömu samstæðu, flogið með nærri 6,4 milljónir farþega frá áramótum og fram í lok september.

Til samanburðar voru farþegarnir hjá stærstu flugfélögum Norðurlanda umtalsvert fleiri á þessu sama tímabili. 28,3 milljónir flugu með Norwegian, 22 milljónir með SAS og Finnair flutti rétt rúmlega 10 milljónir farþega.

Þrátt fyrir að vera umtalsvert stærra en Icelandair Group þá er finnska flugfélagið þó fjarri því að komast á lista yfir 10 stærstu flugfélögin í Evrópu í ár. Og miðað við tölurnar fyrir allt síðasta ár þá hefði sameiginlegur farþegafjöldi Icelandair og WOW í fyrra ekki dugað félaginu inni á topp 20 listann í álfunni það ár.