Sameinað flug­félag er smátt í evrópskum saman­burði

Jafnvel þó Icelandair Group reki nú þrjú áætlunarflugfélög þá er langt í að nafn fyrirtækisins komist á lista yfir 10 stærstu flugfélög Evrópu.

Fyrstu níu mánuði ársins sátu rúmlega 6 milljónir farþega um borð í þotum Icelandair og WOW. Myndir: Icelandair og WOW air

Með kaup­unum á WOW air í gær þá eykst farþega­fjöldinn hjá Icelandair Group veru­lega enda flutti WOW air um 2,8 millj­ónir farþega fyrstu níu mánuði ársins. Á því tíma­bili voru farþeg­arnir hjá Icelandair um 3,3 millj­ónir og um 250 þúsund flugu með Air Iceland Connect. Samtals hafa flug­fé­lögin þrjú, sem nú tilheyra sömu samstæðu, flogið með nærri 6,4 millj­ónir farþega frá áramótum og fram í lok sept­ember.

Til saman­burðar voru farþeg­arnir hjá stærstu flug­fé­lögum Norð­ur­landa umtals­vert fleiri á þessu sama tíma­bili. 28,3 millj­ónir flugu með Norwegian, 22 millj­ónir með SAS og Finnair flutti rétt rúmlega 10 millj­ónir farþega.

Þrátt fyrir að vera umtals­vert stærra en Icelandair Group þá er finnska flug­fé­lagið þó fjarri því að komast á lista yfir 10 stærstu flug­fé­lögin í Evrópu í ár. Og miðað við tölurnar fyrir allt síðasta ár þá hefði sameig­in­legur farþega­fjöldi Icelandair og WOW í fyrra ekki dugað félaginu inni á topp 20 listann í álfunni það ár.