Samgöngur í lofti og á legi í eitt ríkisfyrirtæki

Fyrrum ríkisflugfélag Ítalíu gæti orðið deild í hinu opinbera járnbrautafyrirtæki landsins.

alitalia nytt
Myndir: Alitalia

Þó gangurinn í fluggeiranum hafi verið almennt góður síðustu ár þá hefur ítalska flugfélagið Alitalia barist í bökkum. Jafnvel þó olíufurstar frá Sameinuðu arabísku furstadæmanna hafi farið með stóran hlut í félaginu. Félagið fór svo í greiðslustöðvun og ítalska ríkið gekkst í ábyrgð fyrir rekstrinum þangað til að félaginu yrði komið í hendurnar á nýjum eigendum. Tilboðsfrestur í Alitalia rann út um mánaðarmótin og þá kom á daginn að það bárust tilboð frá tveimur erlendum flugfélögum jafnvel þó hlutur þeira megi ekki fara yfir 40 prósent.

Hið breska easyJet sér tækifæri í eignarhaldi á ítalska flugfélaginu og sömuleiði eitt ónefnt flugfélag. Stjórnendur þess vilja ekki láta nafn þess getið en almennt er talið að þarna sé á ferðinni hið bandaríska Delta Air Lines. Þriðja tilboðið kom svo frá Ferrovie dello Stato sem er járnbrautafyrirtækið hins opinbera og í viðtali við Air Transport World segir fjármálaráðherra Ítalíu að ríkissjóður styðji við bakið á lestarfyrirtækinu. Segir ráðherrann að núna hafi skapast grundvöllur að fyrsta fyrirtækinu í heiminum sem hafi á sínum snærum samgöngur á vegum, á lestarteinum og í lofti.