Samfélagsmiðlar

Segir Andra Má ekki hafa komið með fullan peningapoka frá Íslandi

Hlutafé í dönsku móðurfélagi ferðaskrifstofanna sem Andri Már Ingólfsson á var nýverið aukið um nærri 900 milljónir króna. Fjármagnið kemur frá nokkrum íslenskum fyrirtækjum að sögn danska framkvæmdastjórans.

Fall Primera air kallar á nýtt hlutafé í ferðaskrifstofur Andra Más Ingólfssonar.

Það finnast nánast engar eignir í þrotabúi Primera Travel í Danmörku en kröfurnar nema þó rúmum 16 milljörðum króna. Flugfélagið, sem varð gjaldþrota  þann 1. október, var hluti af Primera Travel Group sem er í eigu Andra Más Ingólfssonar. Innan fyrirtækjasamstæðunnar eru líka allar ferðaskrifstofur Andra á Norðurlöndunum, þar á meðal Heimsferðir og Terra Nova.

Tæpum tveimur vikum eftir fall Primera Air flutti Andri hins vegar eignarhaldið á ferðaskrifstofunum úr hinu íslenska Primera Travel Group yfir í danskt dótturfélag sem var endurnefnt Travelco Nordic. Í dag hefur heiti Primera Travel Group verið breytt í PTG hf. en Andri hefur ekki viljað svara spurningu Túrista um hvað verði um þetta fyrrum móðurfélag ferðaskrifstofanna.

Kom ekki með stóran peningapoka frá Íslandi

Andri hefur hins vegar aukið hlutafé í hinu nýnefnda móðurfélagi, Travelco Nordic, um 880 milljónir króna (47,6 milljónir danskra kr.). Í frétt vefritsins Finans.dk er haft eftir framkvæmdastjóra Travelco Nordic, Peder Hornshøj, að tilgangurinn með auknu hlutafé sé að styrkja reksturinn eftir fall Primera air enda hafi ferðaskrifstofurnar tapað umtalsverðu fé á gjaldþroti flugfélagsins. Hornshøj er jafnframt spurður hvort hann hafi skilning á því að það kunni að hljóma skringilega að ekki séu til peningar til að greiða kröfuhöfum í einu fyrirtæki en á sama tíma komi nýtt hlutafé í annað fyrirtæki í eigu sama aðila. Í svari sínu segir Hornshøj að málið sé ekki svona einfalt. „Það er ekki þannig að hinn íslenski eigandi hafi komið með stóran peningapoka og sett í móðurfélagið Travelco Nordic. Þetta er hlutafé sem kemur frá mismunandi fyrirtækjum á Íslandi,“ segir Peder.

Í frétt Finans.dk kemur jafnframt fram að þremur dögum fyrir gjaldþrot Primera air hafi nafni þess vera breytt í dönsku fyrirtækjaskránni og líka nafni Primera Travel í Danmörku. Líkt og Túristi hefur áður rakið þá flýtti Andri sér að senda út fréttatilkynningu um breytingarnar í kjölfar fyrirspurna Túrista um nafnabreytingarnar. Þess má svo geta að í upphafi var Andra ekki getið á nýrri heimasíðu Travelco Nordic en eftir ábendingar Túrista var honum bætt við lista yfir forsvarsmenn fyrirtækisins. Heiti Heimsferða er þó ennþá rangt stafsett á heimasíðunni.

Upplýsingar um flugferðir liggja fyrir á næstunni

Heimsferðir er ein umsvifamsta ferðaskrifstofan hér á landi og sá Primera air um að flytja viðskiptavini Heimsferða út í heim. Tékkneskt flugfélag tók svo við eftir fall Primera air og núna auglýsa Heimsferðir einnig flugferðir með Icelandair. Hins vegar birtast engar upplýsingar um hvaða flugfélag sér um stærsta hluta af sólarlandaferðum Heimsferða næsta sumar. Flugnúmerin sem birtast í bókunarvél á heimasíðu ferðaskrifstofunnar byrja flesta á „XX“ en Tómas J. Gestsson, forstjóri Heimsferða, hefur ekki svarað fyrirspurnum Túrista um hver ástæðan er fyrir þessu og hvort viðskiptavinir geti átt von á breyttri ferðaáætlun vegna óvissunnar. Fyrrnefndur Peder Hornshøj, framkvæmdastjóri móðurfélags Heimsferða, segir hins vegar, í svari til Túrista, að skýringin á þessum skorti á upplýsingum um flugfélög skrifist á þá staðreynd að það sé tímafrekt verk að uppfæra bókunarkerfin. Hann segist eiga von á því upplýsingarnar verðir uppfærðar á heimasíðunni áður en mánuðirinn er hálfnaður. „Við erum með samninga um flug fyrir næstum allar okkar ferðir í vetur og sumar og búumst ekki við miklum breytingum á flugtímum“.

Þess má geta að í ársreikningi Heimsferða fyrir síðasta ár kemur fram að fyrirtækið sé í ábyrgð fyrir Primera air upp á 1,7 milljarð króna. Aðspurður um stöðu fyrirtækisins, í ljósi þessarar háu tryggingar fyrir gjaldþrota fyrirtæki, þá sagði Tómas, forstjóri Heimsferða, að ábyrgðin hafi ekki lengur verið í gildi. Hann hefur ekki viljað segja hvernig á því stendur. Forsvarsmenn Arion banka hafa hins vegar gefið út að tap bankans, vegna falls Primera air, hafi numið álíka hárri upphæð á síðasta ársfjórðungi. Ekki hefur komið fram hvort bankinn hafi afskrifað hluta af lánum sínum til Primera air áður en að gjaldþroti þess kom.

Nýtt efni

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …