Segir Andra Má ekki hafa komið með fullan peningapoka frá Íslandi

Hlutafé í dönsku móðurfélagi ferðaskrifstofanna sem Andri Már Ingólfsson á var nýverið aukið um nærri 900 milljónir króna. Fjármagnið kemur frá nokkrum íslenskum fyrirtækjum að sögn danska framkvæmdastjórans.

Fall Primera air kallar á nýtt hlutafé í ferðaskrifstofur Andra Más Ingólfssonar. Mynd: Primera air

Það finnast nánast engar eignir í þrotabúi Primera Travel í Danmörku en kröfurnar nema þó rúmum 16 milljörðum króna. Flugfélagið, sem varð gjaldþrota  þann 1. október, var hluti af Primera Travel Group sem er í eigu Andra Más Ingólfssonar. Innan fyrirtækjasamstæðunnar eru líka allar ferðaskrifstofur Andra á Norðurlöndunum, þar á meðal Heimsferðir og Terra Nova.

Tæpum tveimur vikum eftir fall Primera Air flutti Andri hins vegar eignarhaldið á ferðaskrifstofunum úr hinu íslenska Primera Travel Group yfir í danskt dótturfélag sem var endurnefnt Travelco Nordic. Í dag hefur heiti Primera Travel Group verið breytt í PTG hf. en Andri hefur ekki viljað svara spurningu Túrista um hvað verði um þetta fyrrum móðurfélag ferðaskrifstofanna.

Kom ekki með stóran peningapoka frá Íslandi

Andri hefur hins vegar aukið hlutafé í hinu nýnefnda móðurfélagi, Travelco Nordic, um 880 milljónir króna (47,6 milljónir danskra kr.). Í frétt vefritsins Finans.dk er haft eftir framkvæmdastjóra Travelco Nordic, Peder Hornshøj, að tilgangurinn með auknu hlutafé sé að styrkja reksturinn eftir fall Primera air enda hafi ferðaskrifstofurnar tapað umtalsverðu fé á gjaldþroti flugfélagsins. Hornshøj er jafnframt spurður hvort hann hafi skilning á því að það kunni að hljóma skringilega að ekki séu til peningar til að greiða kröfuhöfum í einu fyrirtæki en á sama tíma komi nýtt hlutafé í annað fyrirtæki í eigu sama aðila. Í svari sínu segir Hornshøj að málið sé ekki svona einfalt. „Það er ekki þannig að hinn íslenski eigandi hafi komið með stóran peningapoka og sett í móðurfélagið Travelco Nordic. Þetta er hlutafé sem kemur frá mismunandi fyrirtækjum á Íslandi,“ segir Peder.

Í frétt Finans.dk kemur jafnframt fram að þremur dögum fyrir gjaldþrot Primera air hafi nafni þess vera breytt í dönsku fyrirtækjaskránni og líka nafni Primera Travel í Danmörku. Líkt og Túristi hefur áður rakið þá flýtti Andri sér að senda út fréttatilkynningu um breytingarnar í kjölfar fyrirspurna Túrista um nafnabreytingarnar. Þess má svo geta að í upphafi var Andra ekki getið á nýrri heimasíðu Travelco Nordic en eftir ábendingar Túrista var honum bætt við lista yfir forsvarsmenn fyrirtækisins. Heiti Heimsferða er þó ennþá rangt stafsett á heimasíðunni.

Upplýsingar um flugferðir liggja fyrir á næstunni

Heimsferðir er ein umsvifamsta ferðaskrifstofan hér á landi og sá Primera air um að flytja viðskiptavini Heimsferða út í heim. Tékkneskt flugfélag tók svo við eftir fall Primera air og núna auglýsa Heimsferðir einnig flugferðir með Icelandair. Hins vegar birtast engar upplýsingar um hvaða flugfélag sér um stærsta hluta af sólarlandaferðum Heimsferða næsta sumar. Flugnúmerin sem birtast í bókunarvél á heimasíðu ferðaskrifstofunnar byrja flesta á „XX“ en Tómas J. Gestsson, forstjóri Heimsferða, hefur ekki svarað fyrirspurnum Túrista um hver ástæðan er fyrir þessu og hvort viðskiptavinir geti átt von á breyttri ferðaáætlun vegna óvissunnar. Fyrrnefndur Peder Hornshøj, framkvæmdastjóri móðurfélags Heimsferða, segir hins vegar, í svari til Túrista, að skýringin á þessum skorti á upplýsingum um flugfélög skrifist á þá staðreynd að það sé tímafrekt verk að uppfæra bókunarkerfin. Hann segist eiga von á því upplýsingarnar verðir uppfærðar á heimasíðunni áður en mánuðirinn er hálfnaður. „Við erum með samninga um flug fyrir næstum allar okkar ferðir í vetur og sumar og búumst ekki við miklum breytingum á flugtímum“.

Þess má geta að í ársreikningi Heimsferða fyrir síðasta ár kemur fram að fyrirtækið sé í ábyrgð fyrir Primera air upp á 1,7 milljarð króna. Aðspurður um stöðu fyrirtækisins, í ljósi þessarar háu tryggingar fyrir gjaldþrota fyrirtæki, þá sagði Tómas, forstjóri Heimsferða, að ábyrgðin hafi ekki lengur verið í gildi. Hann hefur ekki viljað segja hvernig á því stendur. Forsvarsmenn Arion banka hafa hins vegar gefið út að tap bankans, vegna falls Primera air, hafi numið álíka hárri upphæð á síðasta ársfjórðungi. Ekki hefur komið fram hvort bankinn hafi afskrifað hluta af lánum sínum til Primera air áður en að gjaldþroti þess kom.