Skuldaði WOW milljarða á Keflavíkurflugvelli eða ekki?

Nú geta stjórnendur Icelandair komist til botns í því hvort forsvarsmenn Isavia hafi leyft helsta keppinaut flugfélagsins að safna upp hárri skuld á lendinga- og farþegagjöldum.

Myndir: Isavia, Icelandair og WOW air

Daginn eftir að tilkynnt var að lágmarks þátttaka í skuldabréfaútboði WOW air hefði náðst sagði Morgunblaðið frá því að heimildir blaðsins hermdu að flugfélagið skuldaði Isavia um tvo millj­arða króna í lend­ing­ar­gjöld. Viðbrögð Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, við fréttinni voru hörð í viðtali við Mbl.is. Sagði hann það illskiljanlegt, ef rétt reyndist, að fyrirtæki í opinberri eigu tæki þátt í að fjármagna taprekstur WOW air.

Skúli Mogensen, forstjóri og þáverandi eigandi WOW, brást illa við frétt Morgunblaðsins og sagði í færslu á Facebook að WOW hefði aldrei skuldað yfir tvo milljarða í lendingagjöld. Eftir stóð vafinn hvort skuldin við Isavia væri um tveir milljarðar, ekki yfir, eins og Morgunblaðið hafði fullyrt. Stjórnarmaður í WOW staðfesti hins vegar, í viðtali við Túrista, að flugfélagið væri í skuld á Keflavíkurflugvelli en aldrei hafa fengist skýr svör um raunverulega stöðu skuldarinnar.

Eftir kaup Icelandair á WOW air fyrr í dag getur Bogi Nils, forstjóri Icelandair, gengið úr skugga um hvort Isavia hafi í raun „fjármagnað taprekstur“ WOW air eða ekki. Ef skuldin hefur aldrei verið nálægt því sem Morgunblaðið greindi frá þá verður ólíklega framhald á málinu. Komi það hins vegar á daginn að Isavia hafi leyft WOW air að safna upp milljarða skuld, meðal annars á opinberum gjöldum, þá eru viðmælendur Túrista sammála um, að það verði að teljast líklegt að forsvarsfólk Icelandair geri kröfu um rannsókn á málinu eða lýsi yfir vantrausti á stjórn og stjórnendur Isavia.