Skúli til fundar við Samgöngustofu

Það er hlutverkt Samgöngustofu að fylgjast með rekstri flugrekenda og gæta öryggis í flugsamgöngum.

wow skuli airbus
Skúli Mogensen forstjóri og eigandi WOW Mynd: WOW air

Nú er ljóst að ekkert verður af yfirtöku Icelandair á WOW air. Í tilkynningu sem Icelandair Group sendi frá sér í morgun segir að þeir fyrirvarar sem gerðir voru við kaupin verði ólíklega uppfylltir fyrir hluthafafund á morgun og því hafi það verið sameiginleg niðurstaða forsvarsmanna WOW og Icelandair að falla frá kaupsamningnum.

Stuttu síðar hélt Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, fund með starfsmönnum þar sem hann sagðist vonast til að  söluviðræður við fjársterkan aðila myndu skila árangri strax í næstu viku. Eftir fundinn með starfsmönnum hélt Skúli á fund Samgöngustofu samkvæmt heimildum Túrista.

Það er hlutverk þeirrar stofnunnar að hafa eftirlit með fjárhag flugrekenda líkt og kom fram í svörum Samgöngustofu, við fyrirspurn Túrista, í vikunni. Þar sagði að mat Samgöngustofu væri ávallt ítarlegra þegar vísbendingar væru um rekstrarvanda eða þegar þörf er á fjárhagslegri endurskipulagningu. „Eftirlit með fjárhag flugrekenda tekur ætíð mið af flugöryggi,” sagði jafnframt í svarinu.