Stjórnendur British Airways beðnir um álit á yfirtöku Icelandair á WOW

Samkeppniseftirlitið bíður nú upplýsinga frá móðurfélagi British Airways á kaupum Icelandair á WOW. Eftir viku ætla eigendur Icelandair að greiða atkvæði um yfirtökuna.

icelandair wow
Myndir: Icelandair og WOW air

Samanlagt standa Icelandair og WOW air undir bróðurparti allra flugferða til og frá Keflavíkurflugvelli. Og reyndar hefur vægi innlendra flugrekenda verið hærra hér á landi en þekkist annars staðar í Evrópu. Yfirtaka Icelandair á WOW air hefur því óumflýjanlega þau áhrif að stór hluti af alþjóðaflugi héðan verður á hendi eins fyrirtækis. Forsvarsmenn Icelandair hafa þó bent á að hlutdeild sameinaðs flugfélags verði tæp 4 prósent þegar litið er til áætlunarferða milli Evrópu og Norður-Ameríku. Íslensku félögin eru á þeim markaði í harðri samkeppni við erlend flugfélög og sum bjóða einnig upp á áæltunarferðir til og frá Keflavíkurflugvelli.

Eitt þeirra er British Airways sem flýgur héðan allt að þrisvar á dag frá London en er jafnframt það evrópska flugfélag sem er með flesta áfangastaði í Norður-Ameríku. Á þeim lista er Icelandair í öðru sæti. Og nú hafa stjórnendur IAG, móðurfélags British Airways, fengið beiðni frá Samkeppniseftirlitinu um álit sitt á yfirtöku Icelandair á WOW air. Í svari frá IAG, við fyrirspurn Túrista, segir að fyrirtækið hafi verið beðið um upplýsingar frá íslenskum samkeppnisyfirvöldum og við því verði orðið. Varðandi upplýsingar um hvenær skilafresturinn rennur út þá vísar IAG á Samkeppniseftirlitið. Túristi hefur ekki fengið svar frá eftirlitinu.

Verðmæt lendingaleyfi á Heathrow

Íslandsflug British Airways takmarkast við ferðir frá London en þó frá bæði Heathrow flugvelli og City. Frá þeim fyrrnefnda hefur Icelandair um árabil flogið tvisvar á dag en lendingaleyfi á flugvellinum eru mjög verðmæt vegna þess hve þéttsetinn Heathrow flugvöllur er. Þannig seldi SAS eitt leyfi á þessum fjölfarnasta flugvelli í Evrópu á 60 milljónir dollara (um 7,4 milljarðar króna) fyrir þremur árum síðan.

Hvort virði lendingaleyfa Icelandair er álíka mikið er ekki hægt að fullyrða en það má telja ólíklegt að forsvarsfólk Icelandair gæti sætt sig við að draga úr Lundúnarfluginu frá Heathrow ef Samkeppniseftirlitið gerði kröfu um slíkt. Til að mynda ef umsögn IAG um samrunann verður neikvæð. Stjórnendur IAG gætu til að mynda horft til þess að Aer Lingus, írska flugfélagið sem IAG keypti nýverið, er í harðri samkeppni við bæði íslensku flugfélögin í ferðum milli Dublin og Norður-Ameríku. Það liggur fyrir að flug Icelandair og WOW frá Dublin hefur gengið vel síðustu ár. Það hefur til að mynda komið fram í máli stjórnenda Icelandair á uppgjörsfundum og endurspeglast í fjölgun ferða WOW air til borgarinnar. Skúli Mogensen hafði líka augastað á Írlandi sem nýrri heimahöfn fyrir WOW air.

Innan IAG eru líka flugfélögin Vueling og Iberia Express sem bæði fljúga hingað yfir sumarmánuðina frá Spáni og þá í samkeppni við Icelandair og WOW.

Samkeppnin að gera út af við bæði félög

Breska lággjaldaflugfélagið easyJet hefur lengi verið umsvifamesta erlenda flugfélagið hér á landi. Upplýsingafulltrúi þess vill ekki svara því hvort fyrirtækinu hafi borist erindi frá íslenskum yfirvöldum. Forstjóri flugfélagsins hefur þó sagt að hann telji að forsvarsmenn íslensku flugfélaganna hafi komist að því að betra væri að vera með eitt fyrirtæki sem rekið væri með hagnaði í stað þess að láta samkeppnina gera út af við bæði tvö.

Eftir viku verður hluthafafundur Icelandair, vegna yfirtökunnar á WOW air, haldinn. Ekki er víst að úrskurður Samkeppniseftirlitsins liggi þá fyrir.