Stjórn­endur British Airways beðnir um álit á yfir­töku Icelandair á WOW

Samkeppniseftirlitið bíður nú upplýsinga frá móðurfélagi British Airways á kaupum Icelandair á WOW. Eftir viku ætla eigendur Icelandair að greiða atkvæði um yfirtökuna.

icelandair wow
Myndir: Icelandair og WOW air

Saman­lagt standa Icelandair og WOW air undir bróð­urparti allra flug­ferða til og frá Kefla­vík­ur­flug­velli. Og reyndar hefur vægi innlendra flugrek­enda verið hærra hér á landi en þekkist annars staðar í Evrópu. Yfir­taka Icelandair á WOW air hefur því óumflýj­an­lega þau áhrif að stór hluti af alþjóða­flugi héðan verður á hendi eins fyrir­tækis. Forsvars­menn Icelandair hafa þó bent á að hlut­deild sameinaðs flug­fé­lags verði tæp 4 prósent þegar litið er til áætl­un­ar­ferða milli Evrópu og Norður-Ameríku. Íslensku félögin eru á þeim markaði í harðri samkeppni við erlend flug­félög og sum bjóða einnig upp á áælt­un­ar­ferðir til og frá Kefla­vík­ur­flug­velli.

Eitt þeirra er British Airways sem flýgur héðan allt að þrisvar á dag frá London en er jafn­framt það evrópska flug­félag sem er með flesta áfanga­staði í Norður-Ameríku. Á þeim lista er Icelandair í öðru sæti. Og nú hafa stjórn­endur IAG, móður­fé­lags British Airways, fengið beiðni frá Samkeppnis­eft­ir­litinu um álit sitt á yfir­töku Icelandair á WOW air. Í svari frá IAG, við fyrir­spurn Túrista, segir að fyrir­tækið hafi verið beðið um upplýs­ingar frá íslenskum samkeppn­is­yf­ir­völdum og við því verði orðið. Varð­andi upplýs­ingar um hvenær skila­frest­urinn rennur út þá vísar IAG á Samkeppnis­eft­ir­litið. Túristi hefur ekki fengið svar frá eftir­litinu.

Verðmæt lend­inga­leyfi á Heathrow

Íslands­flug British Airways takmarkast við ferðir frá London en þó frá bæði Heathrow flug­velli og City. Frá þeim fyrr­nefnda hefur Icelandair um árabil flogið tvisvar á dag en lend­inga­leyfi á flug­vell­inum eru mjög verðmæt vegna þess hve þétt­setinn Heathrow flug­völlur er. Þannig seldi SAS eitt leyfi á þessum fjöl­farn­asta flug­velli í Evrópu á 60 millj­ónir dollara (um 7,4 millj­arðar króna) fyrir þremur árum síðan.

Hvort virði lend­inga­leyfa Icelandair er álíka mikið er ekki hægt að full­yrða en það má telja ólík­legt að forsvars­fólk Icelandair gæti sætt sig við að draga úr Lund­únar­fluginu frá Heathrow ef Samkeppnis­eft­ir­litið gerði kröfu um slíkt. Til að mynda ef umsögn IAG um samrunann verður neikvæð. Stjórn­endur IAG gætu til að mynda horft til þess að Aer Lingus, írska flug­fé­lagið sem IAG keypti nýverið, er í harðri samkeppni við bæði íslensku flug­fé­lögin í ferðum milli Dublin og Norður-Ameríku. Það liggur fyrir að flug Icelandair og WOW frá Dublin hefur gengið vel síðustu ár. Það hefur til að mynda komið fram í máli stjórn­enda Icelandair á uppgjörs­fundum og endur­speglast í fjölgun ferða WOW air til borg­ar­innar. Skúli Mogensen hafði líka auga­stað á Írlandi sem nýrri heima­höfn fyrir WOW air.

Innan IAG eru líka flug­fé­lögin Vueling og Iberia Express sem bæði fljúga hingað yfir sumar­mán­uðina frá Spáni og þá í samkeppni við Icelandair og WOW.

Samkeppnin að gera út af við bæði félög

Breska lággjalda­flug­fé­lagið easyJet hefur lengi verið umsvifa­mesta erlenda flug­fé­lagið hér á landi. Upplýs­inga­full­trúi þess vill ekki svara því hvort fyrir­tækinu hafi borist erindi frá íslenskum yfir­völdum. Forstjóri flug­fé­lagsins hefur þó sagt að hann telji að forsvars­menn íslensku flug­fé­lag­anna hafi komist að því að betra væri að vera með eitt fyrir­tæki sem rekið væri með hagnaði í stað þess að láta samkeppnina gera út af við bæði tvö.

Eftir viku verður hlut­hafa­fundur Icelandair, vegna yfir­tök­unnar á WOW air, haldinn. Ekki er víst að úrskurður Samkeppnis­eft­ir­litsins liggi þá fyrir.