Þotunum skilað strax í dag

Það liðu ekki nema tæpir tveir tíma frá því að WOW air tilkynnti um fækkun í flugflota félagsins og þar til að þoturnar voru farnar til eigenda sinna.

Mynd: WOW air

Seinnipartinn í dag sendi WOW air frá sér tilkynningu þar sem fram kom að fækkað verði um fjórar þotur í flugflota félagsins. „Þessi aðgerð er hluti af endurskipulagningu á rekstri félagsins en legið hefur fyrir að minnka þurfi flotann til þess að auka hagkvæmni, draga úr árstíðarsveiflu og hámarka arðsemi. Um er að ræða tvær Airbus A320 vélar og tvær Airbus A330 vélar sem ekki hefðu nýst sem skildi í vetraráætlun WOW air,“ sagði í tilkynningunni.

Tæpum tveimur tímum eftir að tilkynningin var send fjölmiðlum þá tók önnur þessara tveggja Airbus 330 breiðþota á loft frá Keflavíkurflugvelli og tók stefnuna á Tarbes flugvöll í suðvesturhluta Frakklands. Hin breiðþotan fór sömu leið klukkutíma síðar samkvæmt því sem sjá má á vefsíðu Flightradar. Telja má víst að þar með séu flugvélarnar á ný komnar í hendur eigandans, CIT Aerospace International.

Klukkan átta í kvöld fór svo TF-BRO, Airbus 320 þota WOW air, til Shannon á Írlandi og þar með hefur henni líklega líka verið skilað. Fjórða þotan sem fer úr flotanum, TF-SIS, er ennþá í áætlunarflugi fyrir WOW en hún er, líkt og TF-BRO, í eigu Jessica Leasing DAC.

Ekki hefur komið fram hvaða áhrif þessi fækkun í flugflotanum hefur á vetraráætlun WOW en í fyrrnefndri tilkynningu segir að fækkun í flugflotanum muni ekki hafa áhrif á áætlunarflugið til Nýju-Delí. Þangað hefur WOW áætlunarflug í næsta mánuði og þarf til þess Airbus 330 breiðþotur og á þessari stundu er ekki hægt að bóka farmiða með WOW til indversku borgarinnar frá og með byrjun febrúar. Túristi óskað eftir skýringum á því.