Þúsund Íslendingar til Kanaríeyja í hverri viku

Spænski eyjaklasinn í Atlantshafinu laðar til sín sífellt fleiri Íslendinga og lætur nærri að tólfi hver íslenski farþegi á Keflavíkurflugvelli sé á leiðinni til Kanarí eða Tenerife.

Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Lengi vel komust Íslendingar aðeins til Kanarí og Tenerife yfir vetrarmánuðina og einungis ef þeir keyptu pakkaferð hjá ferðaskrifstofu. Með tilkomu áætlunarflugs WOW air til Tenerife og síðar Las Palmas á Kanarí þá fjölgaði valkostunum og síðustu ár hefur íslenskum ferðamönnum á spænsku eyjunum fjölgað verulega. Þannig tvöfaldaðist fjöldi íslenskra túrista á Tenerife á árunum 2014 til 2016 og samkvæmt nýjum tölum ferðamálaráðs Spánar þá heimsóttu 27.666 Íslendingar Kanaríeyjar á fyrri helmingi ársins. Það jafngildir því að um þúsund Íslendingar hafi í viku hverri heimsótt eyjaklasann og er það ríflega tvöföldun frá sama tíma í fyrra.

Á fyrri helmingi ársins flugu í heildina 333 þúsund Íslendingar til útlanda frá Keflavíkurflugvelli og miðað við tölur ferðamálaráðs Spánar þá hefur tólfti hver Íslendingur í Leifsstöð verið á leiðinni til Kanarí eða Tenerife.

Langar þig til Tenerife: Taktu þá þátt í ferðaleik Ferðamálaráð Spánar