Töluverð óvissa um kaup Icelandair á WOW

Sameining íslensku flugfélaganna gæti orðið ein sú flóknasta í Íslandssögunni að mati sérfræðinga Landsbankans. Margt þarf að ganga upp til að kaup Icelandair á WOW verði að raunveruleika segir í úttekt bankans.

icelandair wow
Myndir: Icelandair og WOW air

Samkeppniseftirlitið, hluthafar Icelandair og stjórnendur eru nú með kaup Icelandair á WOW til skoðunar. Hvort sem af kaupum verður eða ekki þá telja sérfræðingar hagfræðideildar Landsbankans að framboð á flugi félaganna tveggja muni dragast saman næstu 12 mánuði. Þetta kemur fram í úttekt bankans sem birt var í dag.

Trú sérfræðinga Landsbankans á áframhald rekstrar WOW, ef ekki verður af kaupum Icelandair, er lítil. Segja þeir að ef yfirtakan gangi ekki í gegn þá virðist það óumflýjanlegt að WOW hætti rekstri nema að annar kaupandi að félaginu komi til. „Ef af kaupunum verður, eru að okkar mati litlar líkur á að félögin verði rekin í sitt hvoru lagi, a.m.k. ekki lengi,” segir jafnfram í álitinu og rökin eru þau að lítil aðgreiningin sé á milli félaganna þegar horft er til þjónustu og fargjalda.

Þetta er í takt við það sem fleiri hafa haldið fram en gengur þvert á yfirlýsingar forstjóra Icelandair og WOW. Í bréfi til starfsmanna WOW lofaði Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW, að félagið yrði rekið sjálfstætt sem hluti af Icelandair samstæðunni. Fækkun starfsfólks er hins vegar í pípunum að mati Landsbankans.

Sem fyrr segir er yfirtaka Icelandair nú á borði Samkeppniseftirlitsins og ekki er vitað hvort ákvörðun þess liggi fyrir áður en hluthafafundur Icelandair um hlutafjáraukningu, m.a. í tengslum við kaupin á WOW, verður haldinn þann 30. nóvember.