Var rekstur WOW að stöðvast?

Það sem legið hefur í loftinu í haust hefur nú gerst með yfirtöku Icelandair á WOW air. Líkur á að sameiningin eigi sér rætur hjá lánadrottnum.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Mynd: WOW air

Stjórn Icelandair Group hefur gert kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í flugfélaginu WOW air líkt og tilkynnt var í hádeginu. Yfirtakan er hins vegar háð samþykkis samkeppnisyfirvalda og ætti það að fást þar sem útlit er fyrir að dagar WOW air hafi verið taldir að öllu óbreyttu. Heimildir Túrista herma að nú um mánaðarmótin hafi það berlega komið í ljós að félagið stefndi í þrot og því hafi lendingin verið sú að koma félaginu í skjól hjá Icelandair.

Krafan hafi komið frá lánadrottnum félagsins og vitað er að Arion banki hefur lagt WOW air til mikið lánsfé. Bankinn hefur hins vegar þurft að afskrifa um 2 milljarða vegna gjaldþrots Primera air en skellurinn hefði orðið ennþá stærri ef WOW air hefði farið.

Frekari fréttir af stöðunni verða fluttar hér á síðu Túrista í dag.