Vonin lifir hjá WOW

Nú í lok dags berast ánægjuleg tíðindi af WOW air.

Þotur fjögurra þeirra flugfélaga sem Indigo á hlut í. WOW air gæti orðið eitt af dótturfélögunum fyrr en síðar. Tölvuteikning: Airbus

Í morgun var tilkynnt að fallið yrði frá kaupsamningi Icelandair við WOW air og í framhaldinu sagði Skúli Mogensen að hann vonaðist eftir að geta fært starfsfólki sínu góð tíðindi fljótlega en útilokaði heldur ekki uppsagnir. Seinni partinn í dag sagði Airport Associates, einn stærsti samstarfsaðili WOW air hér á landi, upp 237 starfsmönnum.

Það hefur því verið þungt hljóð í greiningaraðilum, verkalýðsforkólfum, stjórnmálamönnum og fleiri í dag en núna, rétt fyrir miðnætti, tilkynnir WOW air að félagið hafi náð bráðabirgðasamkomulagi við bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners um kaup á hlut í íslenska flugfélaginu.

Það var Mbl.is sem sagði fyrst frá og samkvæmt frétt miðilsins verður Skúli Mo­gensen verður áfram stærsti fjár­fest­ir­inn í WOW air ef viðskipt­in ganga eft­ir. „Eft­ir­spurn­in eft­ir lággjaldaþjón­ustu held­ur áfram að aukast úti um all­an heim og með Indigo sem hlut­hafa von­umst við til að not­færa okk­ur þetta spenn­andi markaðstæki­færi,“ seg­ir Skúli í til­kynn­ing­unni. Ég hlakka til að starfa með Indigo og ég er sann­færður um að þetta er besta lang­tíma­skrefið fyr­ir starfs­fólk okk­ar og farþeg­ana,“ seg­ir hann samkvæmt frétt Mbl.is.

Indigo Partners á hlut í nokkrum lággjaldaflugfélögum víðs vegar um heiminn og er til að mynda stærsti hluthafinn í ungverska lággjaldaflugfélaginu Wizz Air en flugfélagið flýgur hingað til lands frá 9 evrópskum borgum. Í samtali við Túrista sagði blaðafulltrúi Indigo partners að ekki yrðu veittar neinar viðbótarupplýsingar um samkomulagið. Það liggur því ekki fyrir hversu langan tíma aðilar ætla sér í að ganga frá samkomulagi eða hversu mikið fé Indigo Partners lætur inn í rekstur WOW.