WOW á eigin fótum um mánaðamót

Það er ekki útlit fyrir að sá tímarammi sem forstjórar Icelandair og WOW air höfðu gefið sér í að ganga frá kaupunum gangi eftir.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Mynd: WOW air

Viðskipti með hlutabréf í Icelandair Group voru stöðvuð í morgun að beiðni Fjármálaeftirlitsins. Opnað var á ný í hádeginu eftir að fyrirtækið sendi frá sér tilkynningu þar sem fram kom að ljóst væri að ýmsir fyrirvarar í kaupsamningi þess á WOW air yrðu ólíklega uppfylltir fyrir hlutahafafund sem fram fer á föstudagsmorgun. Á þeim fundi er ætlunin að hluthafar Icelandair Group greiði atkvæði um yfirtökuna á WOW og er samþykki þeirra einn af fyrirvörum kaupsamningsins sem kynntur var 5. nóvember síðastliðinn.

Kaupin á WOW eru líka háð samþykki Samkeppniseftirlitsins en Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í viðtali við Kastljós RÚV, daginn eftir að kaupin voru tilkynnt, að best væri ef niðurstaða eftirlitsins yrði birt fyrir mánaðamót. „Það er óheppilegt að reka fyrirtæki í óvissu,” sagði Bogi en ítrekaði að í kaupsamningnum væri ekki skilyrði um að niðurstaða Samkeppniseftirlitisins lægi fyrir í lok nóvember. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvenær von er á úrskurði Samkeppniseftirlitisins en líkt og Túristi greindi frá fyrir helgi þá bíður eftirlitið nú álits erlendra flugfélaga á kaupum Icelandair á sínum helsta keppinaut.

Í fyrrnefndu viðtali við Kastljós var Bogi jafnframt spurður hvað myndi gerast ef WOW air yrði ógjaldfært í lok þessa mánaðar. Svar forstjórans var á þá leið að það væri hlutverk Samgöngustofu að grípa inn í og hafa eftirlit með rekstrarhæfi flugrekenda. Túristi hefur óskað eftir upplýsingum frá Samgöngustofu um hvort eftirlit með WOW sé með sérstökum hætti þessa dagana eða ekki.

Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, sagði í bréfi til starfsmanna, daginn sem kaupin voru opinberuð, að hann gerði ráð fyrir að kaupferlið tæki rúmar þrjár vikur. Nú stefnir hins vegar í að óvissunni verði ekki létt fyrir mánaðamót og því ljóst að WOW air verður sjálft að standa undir launagreiðslum og öðrum kostnaði nú um mánaðamót.