WOW air dregur í land

Nú virðist sem stjórnendur WOW air ætli ekki að veita Icelandair samkeppni í flugi til Orlandó nema yfir jól, áramót og páska.

orlando skilti 860
Mynd: Ferðamálaráð Orlando

Þotur Icelandair hafa flogið til Orlandó í Flórída allt frá árinu 1984 og í næsta mánuði er fyrsta ferð WOW air til bandarísku borgarinnar á dagskrá. Þar með er komin samkeppni á einni af þeim flugleiðum sem hlutfall íslenskra farþega er einna hæst. Upphaflega stóð til að WOW air myndi halda þessum ferðum úti fram á vorið en núna þegar vika er liðin frá tilkynningu um kaup Icelandair á flugfélaginu þá hefur ferðunum til Orlandó skyndilega verið fækkað verulega. Þannig eru allar brottfarir frá 5. janúar og fram til 1. apríl sagðar uppseldar og því óbókanlegar.

Staðan var önnur í síðustu viku en Túristi hefur fylgst með breytingum á flugáætlun WOW air til Orlandó allt frá því að tilkynnt var um kaup Icelandair á WOW air. Það er nefnilega vandséð hvernig bæði félögin eigi að geta haldið úti áætlunarflugi til borgarinnar sérstaklega þar sem eftirspurnin eftir ferðunum þangað hefur verið einna mest frá heimamarkaðnum. Valið á þeirri flugleið hjá WOW air var líka harla óvenjulegt því Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, hefur síðustu mánuði talað um sókn félagsins inn á markað fyrir viðskiptaferðalanga en Orlandó er ekki áfangastaður fyrir þess háttar flugfarþega nema að litlu leyti.

Þó tilkynnt hafi verið um kaup Icelandair og WOW air þá eru viðskiptin gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og hluthafafundar Icelandair.

Þess ber að geta að ekki tókst að fá skýringar frá WOW air á þessari breytingu á leiðaráætluninni áður en fréttin var birt. Um leið og svör berast verður gert grein fyrir þeim.

TENGDAR GREINAR: Bílaleigubílar aðeins dýrari í Flórída