WOW air stendur á eigin fótum

Á meðan kaup Icelandair á WOW air eru til skoðunar þá þarf rekstur flugfélagsins að standa undir sér. Fyrirtækið hefur ekki samið um sölu og endurleigu á farþegaþotum líkt og fréttir herma.

wow skuli airbus
Skúli Mogensen er eini eigandi WOW og líka eigandi víkjandi lánsins sem er virði 1,8% hlutafjár í Icelandair Group. Mynd: WOW air

„Það er óheppilegt að reka fyrirtæki í óvissu,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í viðtali við Kastljós Rúv í gærkvöld. Vísaði hann þar til stöðu WOW air en kaup Icelandair Group á flugfélaginu, sem kynnt voru í fyrradag, eru nú til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu. Bogi Nils sagði það heppilegast að niðurstaða eftirlitsins yrði birt fyrir mánaðarmót. Aðspurður um hvað myndi gerast ef WOW air yrði ógjaldfært í lok þessa mánaðar þá sagði Bogi það væri hlutverk Samgöngustofu að grípa inn og hafa eftirlit með rekstrarhæfi flugrekenda. Hann ítrekaði þó að að væri ekki skilyrði í kaupsamningnum að niðurstaða Samkeppniseftirlitisins lægi fyrir í lok nóvember.

Engin flugvélaviðskipti upp á 3 milljarða

Kaup Icelandair á WOW air eru ekki aðeins gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins heldur líka hluthafafundar Icelandair Group og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar. Í tölvupósti til starfsmanna á mánudag sagði Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, að hann gerði ráð fyrir að ferlið gæti tekið rúmar þrjár vikur. Biðin gæti þó orðið nokkru lengri því tímafrestur Samkeppniseftirlitsins er rúmur og eins þarf að boða til hluthafafundar hjá Icelandair með þriggja vikna fyrirvara en það hefur ennþá ekki verið gert.

Vegna meintrar veikrar stöðu WOW hefur verið uppi orðrómur um að Arion banki verði bakhjarl flugfélagsins þangað til að kaup Icelandair eru í höfn. Heimildir Túrista herma hins vegar að WOW air standi á eigin fótum. Eins mun það ekki vera rétt, sem fram kemur í Markaðnum í dag, að WOW air hafi nýverið samið um sölu og endurleigu á farþegaþotum sem skili fyrirtækinu og kröfuhöfum þess þremur milljörðum króna í næstu viku.

Skúli á víkjandi lánið

WOW air hefur hingað til verið sagt alfarið í eigu Skúla Mogensen og það vakti því athygli að talað er um seljendur og hluthafa í fleirtölu í tilkynningunni sem Icelandair sendi frá sér vegna kaupanna á mánudaginn. Hið rétta er hins vegar að Skúli er eigandi alls hlutafjár í WOW air samkvæmt heimildum Túrista. Það er líka hann sem á hið víkjandi lán sem talað er um í tilkynningunni en eigandi þess fær 1,8 prósent hlut í Icelandair Group. Þar með getur hlutur Skúla í Icelandair orðið allt að 6,6 prósent ef kaupin ganga í gegn.