WOW segir slæma stöðu skrifast á utanaðkomandi þætti

Í tilkynningu sem birt var í dag á heimasíðu WOW air segir að staða félagsins sé slæm og nokkrar ólíkar ástæður er nefndar.

Mynd: WOW air

Afkoma WOW air á síðasta ársfjórðungi er ekki í takt við áætlanir og ástæðurnar fyrir því eru helst fjórar samkvæmt því sem fram kemur í nýrri tilkynningu sem birt var á fjárfestasíðu WOW air í dag. Þar segir að í fyrsta lagi hafi neikvæð umræða um fjárhagsstöðu flugfélagsins, í tengslum við skuldabréfaútboðið í haust, haft slæm áhrif á sölu og stöðu fyrirtækisins gangvart lánadrottnum. Í öðru lagi megi kenna gjaldþroti Primera air í október um áframhaldandi neikvætt andrúmsloft sem hafi haft það í för með sér að ekkert varð úr samningi sem WOW hafði gert um sölu og endurleigu á flugvélum. Þar með varð fjárhagsstaðan enn erfiðari en ella.

Í þriðja lagi hafa hinar neikvæðu ytri breytingar haft þau áhrif að kröfuhafar, birgjar og yfirvöld hafi fylgst mjög náið með rekstrinum og greiðsluskilmálar verið hertir sem hafi haft slæm áhrif á lausafé félagsins. Að lokum segir að WOW hafi verið að glíma við síhækkandi olíuverð allt frá því að útboðinu lauk um miðjan september.

Þessir fjórir þættir eru dregnir fram sem helsta ástæða þess að stjórnendur WOW air reyni nú að afla félaginu aukins fjár og hafi nokkrir aðilar sýnt áhuga. Þar á meðal Icelandair samkvæmt því segir í tilkynningunni.

Í tilkynningunni segir hins vegar ekkert um að stefna WOW air í innkaupum á eldsneyti og hraður vöxtur kunni jafnframt að hafa leikið reksturinn grátt. Einnig hefur verið bent á að forsvarsmönnum WOW hefði líklega gengið betur að afla félaginu fjár hefði verið ráðist í það verkefni fyrr. Núna séu aðstæður einfaldlega ekki eins hagstæðar líkt og rakið er í tilkynningu WOW.