WOW virðist hætt við að hætta við Orlando

Vetraráætlun flugfélaganna hófst um síðustu mánaðamót en ennþá eru gerðar breytingar á leiðakerfi WOW air með stuttum fyrirvara. Nú er Flórída á komið á dagskrá á ný en Barcelona dottið út.

Lake Eola í Orlandó. Mynd: Ferðamálaráð Orlando

Þó löng hefð sé fyrir vetrarferðum Íslendinga til Orlandó í Flórída þá hefur Icelandair setið eitt að fluginu til borgarinnar ef frá eru taldar ferðir Iceland Express þangað haustið 2010. Í september síðastliðnum bar hins vegar til tíðinda þegar stjórnendur WOW air boðuðu samkeppni við þáverandi erkifjendur sína í ferðum til Orlandó nú í vetur. Þau áform virtust hafa verið sett á ís því í fyrradag, þegar vika var liðin frá því að tilkynnt var um kaup Icelandair á WOW, þá var ekki lengur hægt að bóka sæti í ferðir WOW til Orlandó frá byrjun janúar og fram til 1. apríl. Engar skýringar fengust á þessari breytingu hjá upplýsingafulltrúa flugfélagsins.

Í dag eru ferðir WOW til Orlando komnar í sölu á ný en aftur á móti er búið að taka út áætlunarflugið til Barcelona í janúar, febrúar og mars. Aðspurð um þessar endurteknu breytingar á vetraráætlun félagsins þá segir Svanhvít Friðriksdóttir, talskona WOW, í svari til Túrista, að hún geti ekki svarað fyrir einstaka aðgerðir sem eru hluti af daglegum rekstri félagsins.

Það er vissulega rétt að stjórnendur flugfélaga gera breytingar á útgefnum flugáætlunum en það er ekki alvanalegt að fella niður stóran hluta af ferðum til áfangastaðar með stuttum fyrirvara. Þess háttar aðgerð riðlar ferðaplönum farþega og getur skapað óvissu um áreiðanleika viðkomandi flugfélags.