Yfirlýsing Skúla gæti kallað á neikvæð viðbrögð frá Icelandair og Samkeppniseftirlitinu

Það gæti reynst samkeppnisyfirvöldum ómögulegt að gefa grænt ljós á yfirtöku Icelandair á WOW air ef það eru í raun aðrir áhugasamir kaupendur.

wow skuli airbus
Skúli Mogensen, forstjóri og eini eigandi WOW air. Mynd: WOW air

Á sama tíma og Skúli Mogensen er að binda lausa enda varðandi sölu á WOW air til Icelandair þá er hann að skoða áhuga annarra aðila á flugfélaginu. Þannig má skilja tölvupóst sem forstjóri og eigandi WOW air sendi starfsmönnum sínum í gær. Pósturinn var sendur í kjölfar tilkynningar frá Icelandair Group þar sem fram kom að ólíklegt væri að allir fyrirvarar varðandi kaupin á WOW verði uppfylltir fyrir hluthafafund á föstudagsmorgun. Tilkynningin var send út eftir að Fjármálaeftirlitið fór fram á að viðskipti með bréf Icelandair væru stöðvuð gærmorgun. Opnað var fyrir viðskiptin í framhaldinu.

Yfirlýsing Skúla um fleiri áhugasama kaupendur vakti skiljanlega mikla athygli og sérstaklega í ljósi þess að núna eru þrjár vikur liðnar frá því að kaup Icelandair á WOW voru kynnt. Hvort þessar hliðarviðræður Skúla hafi komið forsvarsfólki Icelandair á óvart liggur ekki fyrir en ef það er raunin þá má fastlega gera ráð fyrir viðbrögðum frá þeim í dag eða á morgun að mati viðmælenda Túrista. Og ekki síðar en föstudag þegar ætlunin er að sannfæra hluthafa um kosti þess að kaupa WOW og auka hlutafé í Icelandair Group.

Því hefur verið haldið fram af sérfræðingum í samkeppnisrétti og fleirum að Samkeppniseftirlitið geti gefið samþykki sitt fyrir kaupum Icelandair á WOW ef síðarnefnda félagið er í raun á fallandi fæti og hafi engan annan kost. Miðað við yfirlýsingu Skúla í dag er það hins vegar ekki raunin og því gæti það reynst Samkeppniseftirlitinu erfitt að gefa grænt ljós á samþjöppun ef annar kaupandi en Icelandair er sannarlega til staðar.

Yfirtaka Icelandair Group á WOW air var gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafundar og Samkeppniseftirlitsins auk niðustöðu áreiðanleikakönnunar. Þegar samningurinn var kynntur þann 5. nóvember sögðu forstjórar Icelandair og WOW air að þeir vonuðust eftir niðurstöðu fyrir mánaðamót. Miðað við stöðuna í dag er ólíklegt að það náist og þar með stendur WOW eitt um næstu mánaðamót líkt og Túristi fjallaði um í gær.