10 flug í viku til Alicante

Það verða sæti fyrir hátt í 8 þúsund farþega í mánuði í þotunum sem fljúga héðan til spænsku borgarinnar næsta sumar.

Frá Alicante. Mynd: Cale Weaver / Unsplash

Strandstaðirnir við Costa Blanca hafa lengi laðað til sín sólþyrsta Íslendinga og ferðalagið um þennan vinsæla hluta Spánar hefst oftar en ekki á flugvellinum í Alicante. Þaðan er nefnilega stutt til Benidorm, Calpe, Albir og óteljandi fleiri ferðamannabæja. Kylfingar sækja líka í svæðið og stækkandi hópur Íslendingar hefur þar vetursetu enda flogið þangað frá Keflavíkurflugvelli allt árið um kring.

Það er hins vegar á sumrin sem fjöldi flugferða nær hámarki og nú stefnir í tíu vikulegar ferðir frá vori og fram á haust. Þetta er viðbót um eina brottför frá síðasta sumri sem þýðir að það verða verða sæti fyrir hátt í átta þúsund manns í þotunum sem munu fljúga héðan til Alicante í hverju mánuði.

Það er WOW air sem er umsvifamest í fluginu til Costa Blanca með fjórar brottfarir í viku og Gaman ferðir, systurfélag WOW air, nýtir hluta af sætunum um borð fyrir sína farþega. Vita og Úrval Útsýn sameinast um leiguflug Icelandair til Alicante sem verður tvisvar í viku. Heimsferðir verða með jafn margar ferðir á eigin vegum en síðustu ár hefur ferðaskrifstofan notið góðs af flugi systurfélagsins Primera air til Spánar en það flugfélag varð gjaldþrota í haust.

Heimsferðir hafa því gengið frá samningum við tékkneska flugfélagið Travelservice um leiguflug á næsta ári. Að sögn Tómasar J. Gestssonar, forstjóra Heimsferða, þá er hluti af sætunum frátekinn fyrir minni ferðaskrifstofur en megnið er í sölu hjá Heimsferðum. Úrval-Útsýn keypti áður hluta af sínum sætum til Alicante hjá Primera air en mun í sumar fljúga farþegum sínum til Spánar með Icelandair, sem fyrr segir, en líka með Norwegian sem flýgur tvisvar í viku frá Alicante til Íslands alla mánuði ársins.