Aukagjöldin standa undir nærri þriðjungi farþegatekna

Farþegar WOW borga að jafnaði nærri 6 þúsund krónur á hvern fluglegg fyrir allt annað en flugmiðann sjálfan. Vægi þessara tekna er mun lægra hjá Icelandair og líka hjá norska lágfargjaldafélaginu Norwegian.

wow radir
Mynd: WOW

Ef þú bókar ódýrasta fargjaldið hjá WOW air þá þarftu að borga aukalega fyrir stærri handfarangur, innritaðar töskur, val á sæti og allar veitingar. Þessi verðstefna WOW er í takt við það sem lágfargjaldaflugfélög og reyndar mörg hefðbundin flugfélög fylgja í dag. WOW er þó eitt fárra flugfélaga sem takmarkar þyngd og stærð handfarangurs eins strangt og raun ber vitni. Eins er bókunargjald félagsins í hærri kantinum því 999 krónur bætast við hverja pöntun sem gerð er.

Tekjur WOW af ofantöldum aukagjöldum, auk þóknana af miðlun á hótelgistingu og bílaleigubílum, námu í heildina 16,6 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins samkvæmt uppgjöri félagsins fyrir tímabilið. Og miðað við uppgefinn farþegafjölda hjá WOW þá hafa farþegar félagsins að jafnaði keypt ofantaldar viðbótarþjónustur fyrir sem nemur 5.939 krónur á hvern fluglegg. Vægi þessara tekna er því 31,7% af farþegatekjum WOW air.

Til samanburðar námu þessar viðbótartekjur 2.226 kr. á hvern farþega hjá Icelandair á sama tímabili eða um 8 prósentum af heildinni. Skýringin á þessum mikla mun er meðal annars sú að inní fargjöldum Icelandair er meira innifalið en hjá WOW air. Þess ber þó að geta að námundun í farþegatölum WOW air veldur skekkju í þessum samanburði og einnig sú staðreynd að tölur fyrir Air Iceland Connect eru hluti af uppgefnum upplýsingum Icelandair.

Í samanburði við lágfargjaldaflugfélögið Norwegian, sem einnig er stórtækt í flugi yfir Atlantshafið, þá er vægi hliðartekna líka mun hærra hjá WOW. Um 15% af tekjur Norwegian, fyrstu níu mánuði ársins, urðu til vegna sölu á öðru en flugmiðum.