Færri nýta sér innanlandsflugið

Í samanburði síðustu tvö ár þá fljúga færri innanlands í ár. Hlutfallslega hefur minnstur samdráttur orðið á Akureyri en beint leiguflug frá Bretlandi hafði þar mikið að segja fyrstu mánuði ársins.

flugvel innanlands isavia
Mynd: Isavia

Áfram fækkar farþegum í innanlandsflugi því samkvæmt nýjustu tölum Isavia fóru tæplega 673 þúsund farþegar um aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll fyrstu 10 mánuði ársins. Á sama tíma í fyrra voru þeir um 704 þúsund og fækkunin nemur því um 31 þúsund farþegum og 4,4 prósentum. Samdrátturinn miðað við fyrstu tíu mánuðina 2016 er minni en í samanburði við sama tímabil 2015 og 2014 þá hefur orðið aukning.

Í tölum Isavia er umferð um minni flugvellina ekki sundurliðuð eins og sést á töflunni hér fyrir neðan. Hafa ber í huga að farþegar sem fara í millilandaflug frá Reykjavík, Egilsstöðum og Akureyri eru inn í þessum tölum og líka ferðamenn í útsýnisflugi. Þannig eru allir þeir Bretar sem flugu til Akureyrar á fyrsta fjórðungi ársins taldir með.

Rekstur flugfélaganna sem sinna innanlandsfluginu hefur verið erfiður síðustu misseri. Það hefur til að mynda komið fram í máli forsvarsmanna Icelandair Group, sem á Air Iceland Connect, og í viðtali Túrista við Hörð Guðmundsson, forstjóra Flugfélagsins Ernir, nýverið. Nefndi Hörður að hátt eldsneytisverð, gengi krónunnar og ásókn millilandaflugfélaganna í starfsfólk sem dæmi um erfitt rekstrarumhverfi flugfélaganna.