Færri nýttu sér áætlunarflugið milli Íslands og Bretlands

Síðustu haust hefur vöxturinn í Íslandsflugi frá Bretlandi verið mældur í tugum prósenta. Svo er ekki lengur.

Nærri 4 þúsund nýttu sér ferðir Icelandair frá Birmingham í október í fyrra. Félagið hefur nú hætt fluginu og það hefur neikvæð áhrif. Mynd: Icelandair

Ásókn Breta í vetrarferðir til Íslands hefur verið undirstaðan í ferðaþjónustu hér á landi utan háannatíma. Hingað koma miklu fleiri breskir ferðamenn að vetri en að sumri og til að mynda flugu héðan um 47 þúsund Bretar í febrúar síðastliðinum en þeir voru samtals tæplega 42 þúsund yfir sumarmánuðina þrjá.

Þetta ferðamynstur er megin skýringin á því að flugsamgöngur milli Íslands og Bretlands eru tíðari á veturna en á sumrin. Þá er líka flogið frá fleiri áfangastöðunum og þegar mest lét voru farnar hingað áætlunarferðir frá þrettán breskum flugvöllum. Í vetur verða þeir hins vegar aðeins átta því nú hefur Air Iceland Connect lagt niður ferðir sínar frá Aberdeen og Belfast og Birmingham er ekki lengur hluti að leiðakerfi Icelandair. Á sama átt hafa easyJet og WOW hætt flugi til Bristol og það síðarnefnda gerir nú hlé á ferðum sínum frá Edinborg. Íbúum Bretlands sem stendur til boða áætlunarflug til Íslands, beint úr heimabyggð, fer því fækkandi og í síðastliðnum október fækkaði farþegum í Íslandsflugi frá Bretlandi um átta þúsund. Samdrátturinn nemur um 6 prósentum sem er allt önnur þróun en árin á undan eins og sjá má.