Farþegum fækkar um tíund

Áframhaldandi samdráttur á flugvöllum landsins en hlutfallslega minnstur á Akureyri sem skrifast að nokkru leyti á nýtt Bretlandsflug.

Nú í desember hefur breska ferðaskrifstofan Super Break boðið upp á Íslandsflug frá Bretlandi sem mun þá hafa jákvæð áhrif á farþegatölur fyrir norðan þó þar sem ekki um að ræða farþega í innanlandsflugi. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Rétt um 56 þúsund farþegar flugu til og frá innanlandsflugvöllum landsins í nóvember. Þetta er ríflega sex þúsund færri farþegar en á sama tíma í fyrra og nemur samdrátturinn 10,3 prósentum samkvæmt nýjum tölum Isavia. Upplýsingagjöf Isavia takmarkast við þrjá stærstu innanlandsflugvellina og þeir minni eru settir í einn hóp. Og þar er samdrátturinn hlutfallslega mestur eða um 18 prósent eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Líkt og Túristi hefur áður greint frá þá hefur farþegum á innanlandsflugvöllunum fækkað umtalsvert í ár eða um fimm af hundraði nú þegar aðeins desember er ótalinn. Það jafngildir því að á hverjum degi hafi um 110 færri farþegar flogið innanlands í ár í samanburði við síðasta ár. Hafa ber í huga að í tölum Isavia eru allir farþegar sem fara um innanlandsflugvellina taldir. Líka þeir sem nýttu sér alþjóðaflug, einkaflug og eins farþegar í útsýnisflugi.

Farþegar sem fljúga beint milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar með Air Iceland Connect eru líka inn í tölunum en fyrir norðan fækkaði farþegum hlutfallslega minnst í nóvember.