Farþegum gæti fækkað um 1800 á dag

Ný farþegaspá Keflavíkurflugvallar gerir ráð fyrir töluverðum samdrætti fyrstu þrjá mánuði næsta árs.

kef farthegar
Mynd: Isavia

Þotunum í flugflota WOW air fækkar hratt og í gær tilkynnti félagið um sölu á fjórum þotum til kanadíska flugfélagsins Air Canada. Verða þær afhentar strax eftir áramót. Í nóvember missti félagið svo frá sér fjórar þotur og að minnsta kosti ein flugvél í viðbót mun fara úr flotanum sem mun samanstanda af 11 Airbus flugvélum á næsta ári í stað 20.

Þessar breytingar kalla að gjörbreytt leiðakerfi og niðurskurðurinn hefur umtalsverð áhrif á farþegafjöldann á Keflavíkurflugvelli. Þannig gerir ný farþegaspá Isavia ráð fyrir að farþegum á Keflavíkurflugvelli fækki um 159 þúsund á fyrsta fjórðungi næsta árs eða um nærri átján hundruð á dag að jafnaði. Þetta kemur fram í nýrri farþegaspá sem Isavia sendi rekstraðilum á Keflavíkurflugvelli fyrir helgi.

Gangi þessi áætlun eftir mun farþegum fækka um níu af hundraði allt þetta tímabil  og langmest í mars. Þá er gert ráð fyrir um 97 þúsund færri farþegum eða um 14 prósenta samdrætti. Þessi mikla niðursveifla skrifast ekki bara á niðurskurðinn hjá WOW air heldur líka á tímasetningu páska. Þeir verða um miðjan apríl á næsta ári en voru um mánaðarmótin mars apríl í ár. Í janúar er búist við að farþegahópurinn dragist aðeins saman um tvo af hundraði og um tíund í febrúar.

Það er hópur skiptifarþega sem ætti að dragast hlutfallslega mest saman á þessu þriggja mánaða tímabili eða um 13 prósent samkvæmt þessari nýju áætlun Keflavíkurflugvallar. Skýringin á því liggur líklegast í þeirri staðreynd að undanfarin misseri hefur rúmur helmingur af farþegum WOW verið tengifarþegar. Þar með er fækkun ferðamanna, fyrstu þrjá mánuði næsta árs, ekki eins mikil. Til að mynda er gert ráð fyrir að komu- og brottfararfarþegum fækki um 7 og 8 prósent fyrstu þrjá mánuðina 2019.