Flýgur frá Keflavíkurflugvelli í kvöld og lendir í Katowice á nýju ári

Það verða farnar 36 áætlunarferðir héðan til útlanda í dag og sú síðasta verður í loftinu þegar árið 2019 gengur í garð.

Þota á vegum Wizz air. Mynd: Wizz air

Í dag, gamlársdag, munu ófáir fara um Flugstöð Leifs Eiríkssonar því á dagskrá eru 56 komur og 36 brottfarir. Og í ljósi þess hve vinsæll áfangastaður Ísland er orðinn yfir hátíðarnar má gera ráð fyrir að bróðurpartur farþeganna verði erlendir ferðamenn. Jóladagur og nýársdagur eru til að mynda tveir af stærstu dögum ársins í Bláa lóninu ár hvert sem segir sína sögu um ásóknina í Íslandsferðir yfir hátíðarnar.

Þessi miklu straumur hingað til lands í dag gerir það líka að verkum að margir verða að standa vaktina og þar á meðal starfsmenn Keflavíkurflugvallar. Síðasta brottförin frá flugvellinum í kvöld er til að mynda ekki á dagskrá fyrr en tuttugu mínútur yfir níu í kvöld og er þar á ferðinni flug Wizz air til Katowice í Póllandi. Flugferðin þangað tekur um þrjá tíma og þar með lendir þotan ekki í pólsku borginni fyrr en rúmir tveir tímar eru liðnir af nýju árinu í Póllandi.

Og þeir sem vilja upplifa áramót í háloftunum geta fengið far með Wizz air til Póllands fyrir lítið því farmiðinn kostar aðeins um 70 evrur eða rúmar 9 þúsund íslenskar krónur.