Forstjóri Ryanair valinn versti yfirmaður í heimi

Írska lággjaldaflugfélagið er það stærsta í Evrópu þegar litið er til fjölda farþega. Forsvarsfólk verkalýðsfélaga efast þó um ágæti forstjóra flugfélagsins.

Michael O´Leary forstjóri Ryanair. Myndir: Ryanair

Á þingi Alþjóðasambands verkalýðsfélaga (ITUC) í Kaupmannahöfn fór fram kosning á versta yfirmanni í heimi. Á listanum voru nöfn tíu forstjóra fyrirtækja sem þykja einstaklega fjandsamleg þegar kemur að kjörum og réttindum starfsfólks. „Eftir fjöruga kosningu var það að lokum Michael O’Leary forstjóri Ryanair sem hlaut hinn vafasama heiður að vera valinn versti yfirmaðurinn,“ segir í frétt á vef ASÍ.

Stjórnendur Ryanair hefur lengi virt að vettugi kröfur starfsmanna sinna um að bindast samtökum og segjast aðeins vilja gera samninga við hvern og einn starfsmann. Verktakasamningar hafa líka verið normið og reglulega berast fregnir af starfsfólki Ryanair, víðsvegar í Evrópu, sem telur sig ekki njóta almenna réttinda, til að mynda hvað varðar lífeyri, veikindafrí eða orlof.

Auk Michael O´Leary þá komu þessir forstjórar til greina sem versti yfirmaður í heimi:
– Jeff Bezos, forstjóri Amazon
– Vincent Bolloré, stjórnarformaður og forstjóri Bolloré
– Ivan Glasenberg, forstjóri Glencore
– Dara Khosrowshahi, forstjóri Uber
– Lee Kun-hee, stjórnarformaður Samsung Group
– Doug McMillon, forstjóri Walmart
– Will Shu, stofnandi og forstjóri Deliveroo
– Arne Sorenson, forstjóri Marriott International
– Harvey Weinstein, fyrrverandi forstjóri Weinstein Company og stofnandi Miramax