Fýluferð utanríkisráðherra á vegum WOW air

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, var meðal farþega í jómfrúarferð WOW air til Indlands. Félagið ætlar hins vegar að hætta fluginu til Nýju Delí strax eftir áramót.

Guðlaugur Þór Þórðarson í Indlandi. Myndir: Stjórnarráðið

Nú er vika liðin frá því að breiðþota WOW air tók á loft frá Keflavíkurflugvelli og hélt áleiðis til Nýju Delí. Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, var ekki um borð í þessari fyrstu áætlunarferð flugfélagsins til Indlands. Þar var hins vegar Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sem hélt þangað ásamt hátt í fimmtíu manna viðskiptasendinefnd í tilefni af samgöngubótinni.

„Indland er annað fjölmennasta ríki heims og ört stækkandi hagkerfi. Beint áætlunarflug milli landanna opnar ýmsa möguleika á sviði ferðaþjónustu og annarra viðskipta,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fund sinn með ferðamálaráðherra Indlands. Þar ræddu ráðherrarnir aukin umsvif í ferðaþjónustu sem viðbúið var að myndu aukast enn frekar með beinu flugi eins og segir í frétt á vef utanríkisráðuneytisins.

Í dag tilkynnti WOW air hins vegar að flugleiðin til Nýju Delí yrði lögð niður strax 20. janúar eða rúmum sex vikum eftir opinbera heimsókn íslenska utanríkisráðherrans. Ráðherra ætti þó að komast heim á ný með WOW air.