Gengisveikingin kemur ekki fram í verði bílaleigubíla í Flórída

Sá sem bókar í dag bílaleigubíl fyrir febrúarferð til Orlando eða Tampa borgar álíka mikið og þeir sem gengu frá pöntun fyrir þremur mánuðum síðan.

florida lance asper
Það verða vafalítið ófáir Íslendingar á götum Flórída í vetur enda löng hefð fyrir ferðum þangað á þessum tíma árs. Mynd: Lance Asper / Unsplash

Frá því í sumarlok hefur gengi krónunnar veikst um 13 prósent gagnvart dollara. Verðlagið í Bandaríkjunum hefur þá almennt hækkað um ríflega tíund í krónum talið á þessu tímabili. Svo mikil er hækkunin þó ekki á bílaleigunum við flugvellina í Orlando og Tampa. Verðhækkunin nemur í mesta lagi rúmum 5 prósentum en hefur reyndar lækkað í sumum tilfellum í samanburði við könnun Túrista í byrjun nóvember eins og sjá má hér fyrir neðan.

Icelandair flýgur til bæði Orlando og Tampa og WOW air hefur uppi áform um flug til Orlando allt fram á vorið en akkúrat núna virðast ferðirnar ekki vera bókanlegar.

Sem fyrr er leitarvél bókunarfyrirtækis Rentalcars nýtt í verðsamanburðinn en hún finnur oft hagstæðari verð en þau sem bjóðast ef farið er beint til bílaleigufyrirtækjanna.