Góðar hugmyndir óskast fyrir miðnætti á mánudag

Styttist í skilafrest í viðskiptahraðalinn Startup Tourism.

Mynd: Startup tourism

Markmið Startup Tourism er að hvetja til nýsköpunar á sviði ferðaþjónustu, styrkja stoðir nýrra fyrirtækja, fjölga afþreyingarmöguleikum og stuðla að dreifingu ferðamanna víðsvegar um landið, allan ársins hring. Óskað er eftir ferskum hugmyndum að afþreyingu eða nýjum lausnum sem styrkt geta innviði greinarinnar en Startup Tourism hefst á ný eftir áramót.

Um er að ræða tíu vikna viðskiptahraðal sem er sniðinn að þörfum nýrra fyrirtækja í ferðaþjónustu. Tekið verður á móti umsóknum fram til miðnættis mánudaginn 3. desember. Síðustu ár hafa borist fjölbreyttar hugmyndir frá aðilum um allt land en um fimmtungur verkefnanna hafa snúið að  tæknilausnum fyrir ferðageirann.