Hangikjöt má fara í handfarangur

Þeir sem ætla að taka hús á ættingjum og vinum í útlöndum um jólin og færa þeim um leið íslenskan jólamat ættu að komast í gegnum vopnaleitina með veislu í farangrinum.

kef taska 860
Þó mælst sé til að hangikjöt fari frekar í innritaðar töskur þá sleppur að taka kjötið með í handfarangri. Mynd: Isavia

Mikill meirihluti þjóðarinnar borðar hangikjöt á jóladag en þessi séríslenski réttur er hvergi fáanlegur í erlendum kjörbúðum. Íslendingar sem búsettir eru í útlöndum verða því að treysta á sendingu að heiman ætli þeir sér að halda í hefðina. Það er því óhætt að fullyrða að þónokkur hluti af þeim íslensku farþegum sem flýgur frá Keflavíkurflugvelli á næstunni tekur með sér hangikjötslæri til að færa vinum og ættingjum í útlöndum.

Og þeir sem það gera þurfa ekki endilega að bæta innrituðum töskum við fargjaldið. Því samkvæmt upplýsingum frá Isavia þá er hangikjöt og annað kjötmeti ekki á lista yfir bannaða hluti handfarangri. Farþegum hefur þó verið ráðlagt að setja hangikjöt frekar í lestarfarangur þar sem það geti verið auðveldara og þægilegra.

Það er þó ekki bara hangikjöt sem Íslendingar taka með sér í utanlandsferðir á þessum tima árs því talsvert er um að landinn pakki líka niður saltfisk og skötu fyrir jólaferðina. Mælst til að þess háttar fari í innritaðar töskur frekar en handfarangur.

Við þetta má svo bæta að tollareglur í hverju landi fyrir sig geta verið mismunandi hvað varðar innflutning á kjöti. Þeir sem vilja vera alveg öruggir með að koma íslensku kræsingunum alla leið upp á veisluborð í útlöndum ganga þá úr skugga um að tollverðir í útlöndum geri matinn ekki upptækan.