Icelandair eykur Evrópuflug

Næsta sumar munu þotur Icelandair flúga mun oftar til Evrópu og viðbótin í Þýskalandsflugið er umtalsverð. Til Kaupmannahafnar verða farnar 35 ferðir í viku hverri.

Mynd: Icelandair

Versnandi afkoma Icelandair á þessu ári skrifast meðal annars á ójafnvægi í leiðakerfi félagsins í sumar líkt og komið hefur fram í máli forsvarsmanna fyrirtækisins. Vægi flugferða til Bandaríkjanna og Kanada var of hátt sem hafði þær afleiðingar að þoturnar sem flugu til Evrópu voru mun þéttsetnari en þær sem héldu vestur um haf.

Fyrir næstu sumarvertíð hefur Icelandair hins vegar aukið framboð á Evrópuflugi töluvert samkvæmt því sem sjá má í bókunarvél á heimasíðu flugfélagsins. Þar með fá ferðir innan álfunnar meira vægi en síðastliðið sumar. Kemur þessi breyting aðallega fram í aukinni tíðni ferða til núverandi áfangastaða og er þýska borgin Dusseldorf sá eini nýi.

Þessar viðbætur haldast í hendur við umbreytingu á leiðakerfi félagsins sem hrundið verður í framkvæmd í vor. Þá munu þotur félagsins fljúga til Evrópu í morgunsárið, líkt og gert hefur verið um árabil, en líka milli 9 og hálf ellefu að morgni. Þar með bætast við brottfarir til Norður-Ameríku í kringum kvöldmatarleytið. Á þeim tíma verður líka flogið til Kaupmannahafnar og næsta sumar geta farþegar Icelandair valið á milli 35 brottfara í viku hverri til dönsku höfuðborgarinnar. Ferðunum til hinna norrænu höfuðborganna fjölgar líka og verða allt að þrjár á dag til Stokkhólms og Óslóar.

Áherslan á Þýskaland verður líka meiri í leiðakerfi Icelandair. Flogið verður tvisvar á dag til Frankfurt, Munchen og Berlínar og ferðum fjölgað til Hamborgar. Nýtt flug til Dusseldorf bætist svo við. Með þessu eykst framboð á flugi milli Íslands og Þýskalands verulega en það drógst saman í ár í kjölfar gjaldþrots Airberlin. Í framhaldinu fækkaði þýskum ferðamönnum hér á landi töluvert.

Líkt og Túristi greindi frá um daginn þá sjá forsvarsmenn svissneska flugfélagsins Swiss, sem eru í eigu Lufthansa, ekki tækifæri í að hefja Íslandsflug. Stjórnendur Icelandair veðja hins vegar á aukin áhuga Svisslendinga á flugi til Íslands og Norður-Ameríku því ferðunum til Zurich verður fjölgað upp í tvær á dag. Auk þess flýgur Icelandair, í samkeppni við easyJet, milli Íslands og Genf á sumrin. Þegar litið er til kortaveltu ferðamanna hér á landi þá tróna Svisslendingar vanalega á toppnum. Auknar samgöngur gætu því ýtt undir ferðamannastrauminn frá Sviss.

Það vekur líka athygli þegar sumarprógramm Icelandair er skoðað að félagið bætir enn á ný við brottförum til Dublin. Icelandair hóf fyrst flug þangað í vor en áður hafði WOW air setið eitt að flugleiðinni. Í sumar munu þotur Icelandair fljúga 10 ferðir í viku til írsku höfuðborgarinnar og gætu þessi auknu umsvif kallað á viðbrögð frá Aer Lingus. Írska flugfélagið gerir nefnilega út á tengiflug milli Evrópu og N-Ameríku á sama hátt og íslensku flugfélögin.

Sem fyrr segir þá var áherslan á Ameríkuflug of mikil hjá Icelandair síðastliðið sumar og það kemur því ekki á óvart að ferðunum vestur um haf hafi ekki verið fjölgað í sama takti og ferðunum til Evrópu. Það er þó viðbót í fjölda brottfara til nokkurra áfangastaða í N-Ameríku, til að mynda til Toronto, Chicago og JFK flugvallar í New York en til þessara þriggja staða verða farnar 2 ferðir á dag.

Hafa ber í huga að flugfloti Icelandair tekur nokkrum breytingum fyrir næsta vor. Félagið tekur í notkun fleiri Boeing MAX flugvélar en í þeim eru færri sæti en í þotunum sem fyrir eru. Þar með er eykst framboðið ekki alltaf í sama hlutfalli og ferðafjöldinn.