Icelandair eykur Evrópuflug

Næsta sumar munu þotur Icelandair flúga mun oftar til Evrópu og viðbótin í Þýskalandsflugið er umtalsverð. Til Kaupmannahafnar verða farnar 35 ferðir í viku hverri.

Mynd: Icelandair

Versn­andi afkoma Icelandair á þessu ári skrifast meðal annars á ójafn­vægi í leiða­kerfi félagsins í sumar líkt og komið hefur fram í máli forsvars­manna fyrir­tæk­isins. Vægi flug­ferða til Banda­ríkj­anna og Kanada var of hátt sem hafði þær afleið­ingar að þoturnar sem flugu til Evrópu voru mun þétt­setnari en þær sem héldu vestur um haf.

Fyrir næstu sumar­vertíð hefur Icelandair hins vegar aukið framboð á Evrópuflugi tölu­vert samkvæmt því sem sjá má í bókun­arvél á heima­síðu flug­fé­lagsins. Þar með fá ferðir innan álfunnar meira vægi en síðast­liðið sumar. Kemur þessi breyting aðal­lega fram í aukinni tíðni ferða til núver­andi áfanga­staða og er þýska borgin Dusseldorf sá eini nýi.

Þessar viðbætur haldast í hendur við umbreyt­ingu á leiða­kerfi félagsins sem hrundið verður í fram­kvæmd í vor. Þá munu þotur félagsins fljúga til Evrópu í morg­uns­árið, líkt og gert hefur verið um árabil, en líka milli 9 og hálf ellefu að morgni. Þar með bætast við brott­farir til Norður-Ameríku í kringum kvöld­mat­ar­leytið. Á þeim tíma verður líka flogið til Kaup­manna­hafnar og næsta sumar geta farþegar Icelandair valið á milli 35 brott­fara í viku hverri til dönsku höfuð­borg­ar­innar. Ferð­unum til hinna norrænu höfuð­borg­anna fjölgar líka og verða allt að þrjár á dag til Stokk­hólms og Óslóar.

Áherslan á Þýska­land verður líka meiri í leiða­kerfi Icelandair. Flogið verður tvisvar á dag til Frankfurt, Munchen og Berlínar og ferðum fjölgað til Hamborgar. Nýtt flug til Dusseldorf bætist svo við. Með þessu eykst framboð á flugi milli Íslands og Þýska­lands veru­lega en það drógst saman í ár í kjölfar gjald­þrots Airberlin. Í fram­haldinu fækkaði þýskum ferða­mönnum hér á landi tölu­vert.

Líkt og Túristi greindi frá um daginn þá sjá forsvars­menn sviss­neska flug­fé­lagsins Swiss, sem eru í eigu Luft­hansa, ekki tæki­færi í að hefja Íslands­flug. Stjórn­endur Icelandair veðja hins vegar á aukin áhuga Sviss­lend­inga á flugi til Íslands og Norður-Ameríku því ferð­unum til Zurich verður fjölgað upp í tvær á dag. Auk þess flýgur Icelandair, í samkeppni við easyJet, milli Íslands og Genf á sumrin. Þegar litið er til korta­veltu ferða­manna hér á landi þá tróna Sviss­lend­ingar vana­lega á toppnum. Auknar samgöngur gætu því ýtt undir ferða­manna­strauminn frá Sviss.

Það vekur líka athygli þegar sumar­pró­gramm Icelandair er skoðað að félagið bætir enn á ný við brott­förum til Dublin. Icelandair hóf fyrst flug þangað í vor en áður hafði WOW air setið eitt að flug­leið­inni. Í sumar munu þotur Icelandair fljúga 10 ferðir í viku til írsku höfuð­borg­ar­innar og gætu þessi auknu umsvif kallað á viðbrögð frá Aer Lingus. Írska flug­fé­lagið gerir nefni­lega út á tengiflug milli Evrópu og N‑Ameríku á sama hátt og íslensku flug­fé­lögin.

Sem fyrr segir þá var áherslan á Amer­íkuflug of mikil hjá Icelandair síðast­liðið sumar og það kemur því ekki á óvart að ferð­unum vestur um haf hafi ekki verið fjölgað í sama takti og ferð­unum til Evrópu. Það er þó viðbót í fjölda brott­fara til nokk­urra áfanga­staða í N‑Ameríku, til að mynda til Toronto, Chicago og JFK flug­vallar í New York en til þessara þriggja staða verða farnar 2 ferðir á dag.

Hafa ber í huga að flug­floti Icelandair tekur nokkrum breyt­ingum fyrir næsta vor. Félagið tekur í notkun fleiri Boeing MAX flug­vélar en í þeim eru færri sæti en í þotunum sem fyrir eru. Þar með er eykst fram­boðið ekki alltaf í sama hlut­falli og ferða­fjöldinn.