Indlandsflug WOW air er komið í loftið

Frá og með deginum í dag geta farþegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar flogið þaðan beint til Nýju Delí.

Nizamuddin moskan í Nýju Delí. MYND: JIRI MOONEN / UNSPLASH

Í hádeginu tók á loft frá Keflavíkurflugvelli breiðþota á vegum WOW air og setti stefnuna á Indira Gandhi flugvöllinn í Nýju-Delí. Flugið tekur um tíu klukkutíma og áætluð lending er klukkan rúmlega þrjú í nótt að staðartíma. Með þessu nýja áætlunarflugi WOW eru komnar á beinar flugsamgöngur milli Íslands og Indlands í fyrsta sinn.

Upphaflega var ætlunin að fljúga fimm ferðir í viku en þeim var fækkað tímabundið niður í þrjár í viku. Miðað við fargjöldin í næstu ferðir þá gengur salan vel því ódýrustu miðarnir í brottfarirnar fram að jólum kosta 165 þúsund ef flogið er frá Keflavíkurflugvelli. Heimferðin er hins vegar um fimm sinnum ódýrari. Frá og með áramótum eru farmiðaverðið lægra.

Þegar tilkynnt var um áform WOW air um Indlandsflug þá var haft eftir Skúla Mogensn, forstjóra og eiganda, að þetta væri tímamótaverkefni. „Aldrei fyrr hefur verið boðið upp á beint áætlunarflug til Indlands frá Íslandi og það er gaman að geta átt þátt í því að marka tímamót í íslenskri flugsögu. Indland er land mikillar sögu og menningar og það fá farþegar okkar að upplifa á frábærum verðum, í glænýjum flugvélum.“

Nýja Delí er önnur stærsta borg Indlands á eftir Mumbai en eins og áður hefur komið fram þá horfir forstjóri WOW til fleiri áfangastaða í Indlandi. Í vor sagði Björgólfur Jóhannsson, þáverandi forstjóra Icelandair Group, að stjórnendur félagsins horfi til Indlandsflugs á næsta ári. Ekki hefur heyrst meira af þeim áformum Icelandair.