Isavia heimilt að fella niður skuldir flugfélaga

Ekki hefur fengist staðfest hvort WOW air skuldi Isavia hátt í tvö milljarða króna eða ekki. Ef skuldin er til staðar og óskað verður eftir niðurfærslu á henni í tengslum við endurskipulagningu rekstrar flugfélagins þá mætti Isavia afskrifa kröfuna.

Mynd: Isavia

„Isavia er ekki óheimilt að gefa eftir viðskiptaskuldir flugrekanda sem eru tilkomnar vegna vangreiddra notendagjalda.“ Þannig hljómar svar Isavia við fyrirspurn Túrista um hvort fyrirtækið, sem er í eigu ríkisins, megi fella niður skuldir flugrekanda sem eru tilkomnar vegna ógreiddra lendinga- og farþegagjalda.

Tilefni fyrirspurnarinnar var óvissan um hvort skuldahali WOW air á Keflavíkurflugvelli næmi um tveimur milljörðum króna líkt og fullyrt var í frétt Morgunblaðsins í haust. Afskrift á hluta af þessari skuld gæti þannig verið hluti þeim fyrirvörum sem Indigo Partners gætu gert við fjárfestingu í WOW air.

Forsvarsmenn Isavia vilja ekki upplýsa um skuldamál einstakra viðskiptavina og því fæst ekki staðfest hver hvort þessi skuld er til staðar eða ekki. Í samtali við Túrista í haust staðfesti Ben Baldanza, fyrrum stjórnarmaður í WOW air, að hann vissi af skuld flugfélagsins á Keflavíkurflugvelli.