Íslendingar mega eiga flugfélög í útlöndum

Morgunblaðið segir frá því í dag að íslenskur aðili verði að fara með meirihluta í fyrirtæki sem er með íslenskt flugrekstrarleyfi. Engu að síður gátu Íslendingar átt flugfélög í útlöndum samanber Primera Air og Sterling.

Það er ennþá óljóst hvort bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners muni fjárfesta í WOW air. Ekki liggur þá fyrir hvort félagið eignist meirihluta í flugfélaginu eða ekki. Í Morgunblaðinu í dag er þó fullyrt að íslensk flugrekstr­ar­leyfi sé bund­ið því skil­yrði að um ís­lenskt eign­ar­hald sé að ræða. Er þar vísað til ákvæða í reglu­gerð Evr­ópuþings­ins og Evr­ópuráðsins.

Þessi ströngu skilyrði sem Morgunblaðið vísar í eru athyglisverð í ljósi þess að Primera Air, flugfélag Andra Más Ingólfssonar, var með flugrekstrarleyfi í Danmörku og Lettlandi. Jafnvel þó flugfélögin væru alfarið í hans eigu og tilheyrðu íslensku móðurfélagi. Íslenskir aðilar áttu líka Sterling flugfélagið í Danmörku.

Gera má ráð fyrir Danir og Lettar mættu að sama skapi eiga meirihluta í íslenskum flugfélögum. Hins vegar gæti málið snúið öðruvísi við ef um væri að ræða bandarískan aðila eins og Indigo Partners. Meirihlutaeign í íslenskum flugrekanda er því mögulega bundin við EES-svæðið en ekki eingöngu Ísland. Túristi óskaði eftir skýringum frá Samgöngustofu á hvernig reglurnar eru í raun og í svari segir að evrópskt eignarhald þurfi til, ekki fortakslaust íslenskt eins og haldið var fram í Morgunblaðinu.