„Íslenskir flugrisar berjast fyrir lífi sínu“

Óróinn á íslenska flugmarkaðinum er tilefni þess að forstjóri SAS fer yfir stöðuna í evrópskum og amerískum fluggeira. Hann telur fleiri gjaldþrot óumflýjanleg.

Rickard Gustafsson, forstjóri SAS. Mynd: SAS

„Íslenskir flugrisar berjast fyrir lífi sínu: Forstjóri SAS spáir fleiri gjaldþrotum í fluggeiranum.“ Þannig hljómar fyrirsögn danska viðskiptablaðsins Børsen á viðtali við Rickard Gustafsson, forstjóra SAS, sem birtist á föstudag. Þrátt fyrir dramatíska fyrirsögn þá ræðir Gustafsson aldrei stöðu íslensku flugfélaganna beint en segir það nauðsynlegt að flugfélögum í Evrópu fækki og þau sem eftir standa verði sterkari. Ástæðan fyrir þessu kalda mati sænska fortjórans er offramboð á flugsætum, lág fargjöld og hátt eldsneytisverð.

Þó rekstur SAS hafi lengi verið í járnum þá hefur félagið náð vopnum sínum á ný og stefnir í metafkomu í ár. Þá verða sex ár liðin frá því að Gustafsson þurfti að leita hálfgerða nauðarsamninga við starfsfólk félagsins til að halda því á lofti.

Á það er beint í Børsen að í Norður-Ameríku standi fimm stærstu flugfélögin undir 86 prósent af framboðinu á meðan fimm stærstu flugfélögin í Evrópu séu með um 2 af hverjum þremur flugsætum innan álfunnar. Þetta vill Gustafsson meina að hafi haft þau áhrif að bandarísk flugfélög hafi bolmagn til að fjárfesta meira en þau evrópsku og ráði betur við ókyrrðina sem nú ríkir víða. „Við erum ekki komin á þann stað ennþá í Evrópu en við erum á leiðinni þangað. Stærsti munurinn á álfunum tveimur er að samþjöppunin í Evrópu hefur að mestu leyti komið til vegna gjaldþrota en ekki sameininga.“