Leyndingarleyfi WOW í London fóru til tveggja flugfélaga

Lágfargjaldaflugflugfélögin easyJet og Wizz air munu frá og með vorinu taka við afgreiðslutímum WOW air á Gatwick flugvelli.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Mynd: WOW air

Fyrir jól staðfestu stjórnendur WOW air orðróm um að þeir hefðu selt lendingarleyfi flugfélagsins á Gatwick flugvelli í London. Í tilkynningu flugfélagsins var þó tekið fram að ekki yrði upplýst um söluverð né kaupendur. Nýuppfærðar upplýsingar yfir leyndingarleyfi í Bretland sýna hins vegar að það var breska flugfélagið easyJet og hið ungverska Wizz air sem keyptu tímana.

Það síðarnefnda er að stórum hluta til í eigu Indigo Partners sem nú íhugar kaup á WOW air. En líkt og Túristi greindi frá þá er Wizz air að hefja flug til Gatwick í vor. Hversu mikið WOW air fékk fyrir lendingarleyfin kemur ekki fram en fram í hinum opinberu bresku gögnum en þar sést að easyJet tekur við morguntímunum af WOW air á meðan Wizz Air fær kvöldtímana.

Athygli vekur að sala á leyfunum til Wizz Air fór fram 30. nóvember eða daginn eftir að kaupum Icelandair á WOW air var slitið daginn áður og síðar þann dag var tilkynnt viðræður um fjárfestingu Indigo Partners í WOW air. Og í ljósi fyrrnefndra tengsla Indigo Partners við Wizz Air og tímasetningu sölunnar á lendingarleyfunum þá má leiða af því líkum að salan „slottunum“ hafi verið hluti af samningaviðræðunum milli Indigo Partners og Skúla Mogensen, eina eiganda WOW air. Salan á leyfunum til easyJet fór fram 5. desember. Almennt tíðkast ekki að lendingarleyfi séu markaðsvara en viðskipti með þau eru heimil í Bretlandi.

WOW air hyggst flytja allt sitt Lundúnarflug til Stansted en sú flughöfn er ekki eins fjölfarin eins og Gatwick og býður upp á mun færri tengimöguleika. Þar með geta ferðaplön hluta þeirra sem keypt hafa miða með WOW air til London í vor og sumar riðlast. Til að mynda Íslendinga sem ætluðu að fljúga með WOW air til Gatwick og þaðan beint út í heim og líka útlendinga sem áformuðu flug hingað frá Gatwick eftir millilendingu.