Geta selt lendingarleyfi á Gatwick

Það er markaður fyrir afgreiðslutíma á næstfjölfarnasta flugvelli Bretlands þó virði þeirra sé margfalt lægra en við Heathrow. Upplýsingafulltrúi WOW vill ekki tjá sig um sögusagnir um að félagið hafi látið frá sér leyfi.

Frá London Gatwick flugvelli. Mynd: London Gatwick

Þau flugfélög sem kjósa að hefja áætlunarflug til Heathrow í London eða fjölga ferðum sínum þangað verða að kaupa lendingarleyfi af þeim félögum sem fyrir eru. Ásóknin í þessi leyfi er það mikil að flugrekendur geta fengið nokkra milljarða fyrir staka afgreiðslutíma líkt og sannaðist þegar SAS seldi nokkur „slott“ á Heathrow fyrir nokkrum árum síðan.

Þessi ásókn í Heathrow hefur haft það í för með sér að virði lendingarleyfi á Gatwick flugvelli fer hækkandi. Þrotabú Monarch flugfélagsins fékk til að mynda umtalsvert fé fyrir afgreiðslutíma félagsins á Gatwick og Luton flugvelli. Almennt tíðkast þó ekki að leyfin séu markaðsvara en viðskipti með þau eru heimil í Bretlandi öfugt við það sem gengur og gerist í Evrópu samkvæmt því sem Túristi kemst næst. Oftast er lausum leyfum einfaldlega úthlutað til flugfélaga sem óska eftir þeim.

Icelandair situr á tveimur daglegum lendingarleyfum á Heathrow og er auk þess með nokkur í viku á Gatwick. Þar er WOW air með allt að tvö „slott“ á dag og nú er uppi orðrómur um að félagið hafi selt þau sín til Indigo Partners, bandaríska fyrirtækisins skoðar kaup á íslenska flugfélaginu. Aðspurð um hvort þetta eigi við rök að styðjast þá segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW, að félagið muni ekki tjá sig um málið.

Hjá Airport Coordination Limited, sem sér um afgreiðslutíma á fjölda breskra flugvalla, fást þau svör að ekki hafi verið tilkynnt um breytingar á leyfum WOW air en flugfélög geti vissulega selt frá sér leyfi en þá aðeins til annars flugfélags. „WOW getur ekki fært afgreiðslutíma til Indigo Partners þar sem Indigo Partners er ekki flugfélag,“ segir í svarinu.