Misræmi í tölum WOW air

Í tilkynningu sem flugfélagið sendi frá sér í dag segir að farþegum hafi fjölgað um 0,5% í nóvember. Miðað við upplýsinga frá félaginu í fyrra þá var hins vegar samdráttur. Skýringin liggur í rangri upplýsingagjöf í fyrra.

wow radir
Mynd: WOW air

„WOW air flutti 197 þúsund farþega til og frá land­inu í nóvember eða um 0,5% fleiri farþega en í nóvember árið 2017.“ Þannig hefst fréttatilkynning sem sem var fjölmiðlum í hádeginu. Þessi hlutfallslega aukning stenst hins vegar ekki miðað við tölur sem WOW air gaf upp í nóvember í fyrra. Þá sagði í tilkynningu að 224 þúsund farþegar hefðu nýtt sér ferðir félagsins. Miðað við þessa tölu þá hefur samdrátturinn í síðasta mánuði numið 12 prósentum.

Aðspurð um þetta misræmi segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, að tölurnar í fyrra hafi verið rangar og hún hafi leiðrétt þær við fjölmiðla á sínum tíma. Túristi finnur ekki þess háttar leiðréttingu í sínum bókum og miðað við fréttir Mbl og Viðskiptablaðsins, af farþegafjölda WOW air í nóvember í fyrra, þá hefur leiðréttingin ekki heldur skilað sér til þeirra fjölmiðla.

Svanhvít ítrekar þó að tölurnar sem gefnar voru upp í hádeginu í dag séu réttar. Það þýðir að farþegar WOW í nóvember í fyrra voru um 196 þúsund en ekki 224 þúsund.

Viðbót: Í kynningu á skuldabréfaútboði WOW air nú í haust kemur fram að farþegafjöldinn í nóvember 2017 hafi numið 193 þúsundum. Ef sú tala er rétt þá hefur farþegum WOW fjölgað um 2% í síðasta nóvember en ekki 0,5% eins og segir í fyrrnefndri tilkynningu frá WOW.