Nærri helmingur ferðamanna frá Bandaríkjunum og Bretlandi

Íslensk ferðaþjónusta á mikið undir heimsóknum frá hinum ensku mælandi stórþjóðum.

Mynd: Iceland.is

Brottfarir erlendra farþega frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll í nóvember voru um 150 þúsund talsins samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um fimm þúsund fleiri en í nóvember á síðasta ári. Fjölgunin nam 3,7 prósentum á milli ára sem er mun minni fjölgun en hefur mælst milli ára í nóvember síðastliðin ár samkvæmt því sem segir í tilkynningu Ferðamálastofu.

Athygli vekur að Bandaríkjamenn og Bretar standa undir nærri helmingi af heildarfjöldanum því héðan flugu 36.530 Bandaríkjamenn en 34.291 Breti í nóvember. Hjá síðarnefnda hópnum var um að ræða samdrátt um nærri sex prósent en aukningin hjá fjölda bandarískra túrista var um 9 prósent. Það er nokkuð minni aukning en verið hefur í heimsóknum Bandaríkjamanna í ár.

Frá áramótum hafa tæplega 2,2 milljónir erlendra farþega farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 5,8 prósent fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra.