Óraunhæf fram­tíð­arsýn fyrir WOW

Pistlahöfundar Forbes tímaritsins sér Keflavíkurflugvöll fyrir sér sem tengistöð fyrir flugfélög Indigo Partners. Leiðakerfi flugfélaganna eru þó ekki gerð fyrir stórsókn á markaðinn fyrir flug yfir Atlantshafið.

Þotur þeirra fjögurra flugfélaga sem Indigo Partners á hlut í. WOW gæti orðið það fimmta. Tölvuteikning: Airbus

Ef kaup Indigo Partners á WOW air verða að veru­leika þá gætu nýir eigendur breytt íslenska lággjalda­flug­fé­laginu í einskonar gerviflug­félag. Þannig gætu þeir gert farþegum hins banda­ríska Frontier að fljúga til Íslands og skipta þar yfir í þotu á vegum ungverska flug­fé­lagsins Wizz air en þó sem farþegar WOW air. Indigo Partners á nefni­lega Frontier og fer með stóran hlut í Wizz air. Kaupin á WOW myndu þá vera liður í að tengja saman leiða­kerfi flug­fé­lag­anna tveggja. Þetta er alla vega tilgáta flug­sér­fræð­ingsins Samuel Engel í grein í Forbes tíma­ritinu.

Hugmyndin um að nýta vörumerkið WOW til að fljúga farþegum milli Evrópu og N‑Ameríku með þotum Frontier og Wizz air er áhuga­verð. Það verður þó að teljast harla ólík­legt að þessi viðskipta­áætlun sé á borðinu hjá eigendum Indigo Partners. Flækj­u­stigið við að tengja saman flug­ferðir ólíkra flug­fé­laga hefur til að mynda lengi staðið í vegi fyrir því að lággjalda­flug­félög bjóði upp á þennan valkost. Hvað þá þegar um er að ræða „últralággjalda­flug­félög” líkt og stjórn­endur Indigo Partners sérhæfa sig í að eiga og reka.

Uppbygging leiða­kerfa Frontier og Wizz Air í dag er svo annar þrösk­uldur. Allar starfstöðvar Wizz air eru í aust­ur­hluta Evrópu ef frá eru taldar stöðv­arnar í Vínar­borg og í Luton skammt frá London. Farþegar Frontier, sem kæmu frá Banda­ríkj­unum, gætu því nær eingöngu flogið áfram frá Íslandi til borga í Póllandi, Rúmeníu, Ungverjalandi, Bosníu, Slóvakíu eða Úkraínu. Og farþegar Wizz air, frá þessum löndum, hefðu ekki úr miklu að moða ef ferð­inni yrði haldið áfram með Frontier flugvél til Banda­ríkj­anna frá Kefla­vík­ur­flug­velli. Þeir gætu þá aðeins flogið til Denver, Orlando, Chicago eða Trenton sem er skammt frá Phila­delphia. Frontier er reyndar líka með starfs­stöð í Las Vegas en Airbus þotur flug­fé­lagsins drífa ekki þaðan til Íslands.

Það er ósenni­legt að mark­að­urinn fyrir ferðir til Denver sé ýkja stór í Varsjá, Skopje, Búkarest eða Kænu­garði. Og þeir eru kannski ekki nógu margir sem sem eru á leið frá Trenton í Banda­ríkj­unum til Belgrad, Wroclaw, Vilnius eða Timisoara. Ef Indigo ætlar í raun að nýta sér Kefla­vík­ur­flug­völl sem tengi­stöð fyrir Wizz air og Frontier þá þyrftu flug­fé­lögin að opna starfs­stöðvar í evrópskum og banda­rískum stór­borgum líkt og WOW air hefur gert. Það myndi þó hafa í för með sér hækk­andi rekstr­ar­kostnað hjá Frontier og Wizz Air og kaupin á WOW myndu því kalla á umtals­verðar fjár­fest­ingar.

Það má líka velta því fyrir sér afhverju Indigo Partners þyrfti á WOW að halda til að halda úti útgerð eins og Forbes lýsir. Evrópskt og banda­rískt flug­félag geta í dag boðið upp á teng­ingar frá Kefla­vík­ur­flug­velli jafnvel þó þau eigi ekki hlut í íslensku flug­fé­lagi. Hver raun­veruleg sýn Indigo Partners er fyrir WOW air gæti komið í ljós á næstu dögum.