Óveðurskýin hrannast upp hjá Norwegian

Einn helsti samkeppnisaðili íslensku flugfélaganna í Atlantshafsflugi er í miklum lausafjárvanda. Reksturinn stendur heldur ekki undir sér sem skrifast meðal annars á rangar ákvarðanir varðandi innkaup á eldsneyti.

Mynd: Norwegian

Þetta hefur verið krefjandi ár fyrir stjórnendur norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian. Það hefur gengið verulega á hinn grunna sjóð félagsins og í lok síðasta vetrar þurftu hluthafar að leggja félaginu til aukið eigið fé. Virði þess rauk hins vegar upp í vor þegar kom í ljós að móðurfélög British Airways og Lufthansa hefðu áhuga á að kaupa Norwegian þrátt fyrir taprekstur. Tveimur tilboðum frá British Airways var hins vegar hafnað af hluthöfum og nú er gengi hlutabréfa komið niður á ný.

Þar með er ekki sagan öll því í síðasta mánuði tapaði Norwegian 1,2 milljörðum norskra króna á framvirkum samningum um kaup á þotueldsneyti. Það jafngildir um 17 milljörðum íslenskra króna og ástæðan fyrir þessu mikla tapi er sú að Norwegian breytti um stefnu í innkaupum á olíu síðla árs. Þá fór félagið að kaupa meira magn fram í tímann til að verja sig gegn hækkunum en svo óheppilega vildi til að olíuverð hefur hríðlækkað eftir að samingurinn var gerður. Þar með er þotueldsneytið á flugvélum Norwegian miklu dýrara en markaðsvirðið segir til um.

Fá ekki aukin lán

Fargjaldaþróunin hjá Norwegian hefur á sama tíma ekki endurspeglað hækkandi olíuverð því meðalfargjaldið hefur lækkað allt þetta ár. Á sama tíma hefur farmiðaverðið verið á uppleið hjá SAS, helsta samkeppnisaðilanum á skandinavíska markaðnum. SAS skilar nú methagnaði á meðan staða Norwegian verður sífellt snúnari.

Reyndar tók gengi hlutabréfa í norska flugfélaginu kipp í október eftir að tilkynnt var að félagið væri nærri því að ganga frá samning við erlenda aðila um fjárfestingu í 140 farþegaþotum Norwegian. Talið er að þarna sé á ferðinni kínverskur banki og að samningurinn muni bæta lausafjárstöðu Norwegian umtalsvert. Hins vegar hafa engin tíðindi borist af þessum samningi síðustu vikur og á meðan hefur staðan á hlutabréfamörkuðum versnað. Í fréttaskýringu norska viðskiptablaðsins Dagens Næringsliv segir að stjórnendur Norwegian verði að landa þessum samningi áður en árið er úti. Það stefnir nefnilega í að félagið brjóti skilmála gagnvart eigendum skuldabréfa í félaginu en vextir á þeim eru komnir upp í 12 prósent. Svo háir vextir eru sagðir til marks um að í dag vilji enginn lána Norwegian fé og í grein norska blaðsins er fullyrt að nú standi Bjørn Kjos, forstjóri og stofnandi Norwegian, frammi fyrir sinni stærstu áskorun ætli hann sér að halda í félagið. Fjármálamarkaðir séu nefnilega lokaðir og stjórnendur IAG, móðurfélags British Airways, hafi öll tromp á hendi sér hafi þeir ennþá áhuga á að taka félagið yfir.

Fljúga til Íslands frá fjórum löndum

Norwegian hefur stóraukið áætlunarflug sitt milli Evrópu og Norður-Ameríku og er orðið umsvifamesta evrópska flugfélagið á JFK flugvelli í New York. Þessi innkoma lággjaldaflugfélagsins á markaðinn fyrir flug milli heimsálfanna tveggja hefur haft í för með sér umtalsverðar verðlækkanir. Og það hefur haft sín áhrif á afkomu Icelandair og WOW air sem bæði gera út á flug yfir Atlantshafið.

Norwegian flýgur í dag til Íslands frá Noregi, Svíþjóð, Ítalíu og Spáni og hefur félagið bætt verulega í Íslandsflugið síðustu ár. Það er í takt við það sem fram kom í viðtali Túrista við Kjos haustið 2013. Þá sagðist hann Ísland vera spennandi áfangastað og hann vissi fyrir víst að fjöldi farþega Norwegian nýtti sér Keflavíkurflugvöll til að fljúga svo þaðan áfram með Icelandair til Bandaríkjanna. Þá var Ameríkuflug WOW air ekki hafið. Kjos viðurkenndi jafnframt í viðtalinu að gjaldþrot Sterling, sem var eigu Íslendinga, hefði gert Norwegian kleift að fóta sig á danska markaðnum.