Óvenju annasamur jóladagur framundan í Leifsstöð

Flugsamgöngur til og frá landinu liggja ekki lengur niðri 25. desember og að þessu sinni verða í boði fleiri ferðir en áður. Umferðin er þó lítil miðað við það sem þekkist víða annars staðar.

MYND: ISAVIA

Það var eiginlega séríslensk hefð að gera hlé á öllu millilandaflugi á jóladag. Þennan eina dag ársins var nefnilega lengi vel ekki hægt að fljúga til eða frá landinu jafnvel þó flugvellir í löndunum í kringum okkur hafi verið opnir og flugáætlunin þar fjölbreytt á jóladag sem aðra daga ársins. En með aukinni ásókn erlendra flugfélaga í Íslandsflug þá er þetta ferðahlé á undanhaldi.

Það var breska lággjaldaflugfélagið easyJet sem rauf hefðina fyrir fjórum árum síðan með einni áætlunarferð hingað til lands á jóladag og þá þurfti að ræsa út starfsfólk Keflavíkurflugvallar til að sinna farþegum. Árið eftir var ekkert flug á boðstólum en í hittifyrra og í fyrra voru ferðirnar þrjár.

Í dag verður hins vegar sett nýtt met því þá verður flogið héðan til fimm borga. Strax i morgunsárið kemur hingað þota á vegum Delta frá New York og flýgur hún svo til baka til Bandaríkjanna rétt fyrir klukkan hálf tíu. Í kringum hádegið stendur SAS fyrir ferðum hingað frá Kaupmannahöfn og Ósló og um kaffileytið tekur á loft þota á vegum Lufthansa sem fljúga mun til Frankfurt. Upp úr klukkan níu í kvöld er svo komið að fimmtu og síðasta ferð dagsins. Er það flug Wizz Air til Riga í Lettlandi.

Icelandair og WOW air halda hins vegar í hefðina og gera hlé á sínu áætlunarflugi frá Íslandi á jóladag. Þotur félaganna tveggja sem staddar eru vestanhafs fljúga þó hingað í nótt og lenda i fyrramálið, á öðrum degi jóla.

Ef þoturnar sem lenda hér í dag verða þéttsetnar þá munu um þúsund farþegar lenda hér í dag og sá stóri hópur kallar á ýmis konar þjónustu. Bæði í Leifsstöð og hjá fyrirtækjum í kringum flugstöðina, til að mynda hjá rútufyrirtækjum og bílaleigum. Gera má ráð fyrir að nærri allir farþegarnir séu erlendir ferðamenn en ekki tengifarþegar þar sem valkostirnir fyrir framhaldsflug í dag eru varla til staðar.