Reiðubúinn til að fjárfesta rúmum 9 milljörðum króna í WOW air

Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum þá er Bill Franke, stjórnandi Indigo Partners, tilbúinn í að taka þátt í endurreisn WOW air.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Mynd: WOW air

Í gær var um þrjú hundruð fastráðnum og lausráðnum starfsmönnum WOW air sagt upp störfum. Að sögn Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda flugfélagsins, var þessi aðgerð liður í samningaviðræðum um fjárfestingu Indigo Partners í WOW air. Seinni partinn í dag var svo tilkynnt að stjórnendur bandaríska fjárfestingafélagsins væru tilbúnir til að setja um 9,4 milljarða króna inn í flugfélagið en þó með ákveðnum fyrirvörum. Þeir snúa aðallega að breytingum á skuldabréfaflokknum sem gefinn var út í haust, bæði hvað varðar réttindi eigenda skuldabréfanna og líka hvað varðar upplýsingaskyldu.

Einnig eru eigendur skuldabréfanna beðnir um samþykki fyrir sérstökum greiðslum til eigenda WOW air. Sem fyrr segir voru skuldabréfin gefin út í september og því ljóst að eigendur þeirra þurfa að sætta sig við töluverðar breytingar á skilmálum nú þegar aðeins um þrír mánuðir eru liðnir frá útgáfunni.