SAS fjölgar flugferðum til Íslands

Skandinavíska flugfélagið ætlar að fljúga hingað oftar frá Kaupmannahöfn og bæta við áfangastað yfir hásumarið.

Mynd: SAS

Um langt árabil hafa þotur SAS flogið hingað frá Ósló allt árið um kring og í hittifyrra bætti félagið við heilsársflugi frá Kaupmannahöfn. Forsvarsmenn þess sjá nú tækifæri í auknu Íslandsflugi því í júlí og ágúst mun SAS bjóða upp á tvær ferðir á dag til Íslands frá Kastrup alla þriðjudag, fimmtudag og sunnudaga. Auk þess bætist við beint flug frá Stokkhólmi tvisvar í viku yfir hásumarið samkvæmt svari frá Mariam Skovfoged, talsmanni flugfélagsins, við fyrirspurn Túrista. SAS spreytti sig síðast á sumarflugi hingað frá sænsku höfuðborginni fyrir sex árum síðan.

Með þessum viðbótarferðum SAS stefnir í að farþegar á Keflavíkurflugvelli muni hafa val á milli 8 áætlunarferða á dag til Kaupmannahafnar í júlí og ágúst á næsta ári. Þotur Icelandair munu nefnilega fljúga til dönsku höfuðborgarinnar fimm sinnum á dag, líkt og Túristi greindi frá í síðustu viku, og hjá WOW eru 12 ferðir í viku á dagskrá. Við þetta bætast svo 10 vikulegar ferðir hjá SAS.

Yfir sumarmánuðina er Íslandsflugið alla jafna á topp tíu lista Kaupmannahafnarflugvallar yfir þær flugleiðir sem flestir farþega nýta sér. Tölur flugvallarins sýna jafnframt að farþegar sem fljúga héðan til Kastrup eru líklegir til að nýta sér áætlunarflugið þaðan til Asíu. Traffíkin frá Keflavíkurflugvelli er því töluverður hluti af umsvifunum á þessum fjölfarnasta flugvelli Norðurlanda.