Skúli: Munum ekki tjá okkur

Á meðan viðræður um fjárfestingu Indigo Partners í WOW air eru í gangi þá munu forsvarsmenn fyrirtækjanna ekki ræða stöðuna umfram það sem fram kemur í tilkynningum.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Mynd: WOW / Friðrik Örn Hjaltested

Nú eru liðnir þrír dagar frá því að Bill Franke og Skúli Mogensen, stjórnendur Indigo Partners og WOW air, sendu frá sér sameiginlega tilkynningu þar sem fram kom að góður gangur væri í viðræðum um mögulega fjárfestingu Indigo Partners í íslenska flugfélaginu. Ekki fást upplýsingar um stöðu mála í dag hvorki hjá Indigo Partners né WOW air. Í svari Skúla Mogensen til Túrista segir að aðilar muni ekki tjá sig umfram það sem þeir senda frá sér á meðan ferlið er í gangi.

Það fást þar með ekki svör við því hvenær stefnt er að því að kynna niðurstöðu viðræðnanna. Af svari Skúla að dæma þá er samningaferlið  þó ennþá í fullum gangi.

Líkt og Túristi greindi frá á miðvikudagskvöld þá gæti Indigo Partners eignast ríflegan meirihluta í WOW air jafnvel þó íslensk og evrópsk lög takmarki fjárfestingu aðila utan EES-svæðisins við minnihluta í íslenskum flugfélögum. Indigo Partners gætu nefnilega búið þannig um hlutina að eignarhald þeirra í WOW air yrði að mestu leyti í  breytanlegum skulda- og hlutabréfum. Félagið hefði þó ekki meirihluta atkvæða í stjórn flugfélagsins.

Í tilkynningu sem WOW air og Indigo Partners sendu frá sér sl. miðvikudag kemur fram að áður en hægt sé að ganga frá kaupunum þá þurfi að liggja fyrir niðurstöður varðandi leiðakerfi WOW air, samninga við flugvélaleigur og skuldabréfaeigendur. Samkvæmt skilmálum skuldabréfanna, sem WOW air gaf út í haust, þá þarf að lágmarki samþykki frá eigendum 66 prósent hlutar af virði skuldabréfanna svo hægt sé að gera á þeim breytingar, til að mynda ef færa á niður virði bréfanna eða fella niður rétt til hlutafjár.